Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Friðland í Flóa 2012 - 3. hluti

Flói

Hér er framhald af fyrri upptökum úr friðlandi í Fóa 2012. Þessar upptökur er frá u.þ.b. kl 3:30 til 4:00, að morgni 25 júní.
Fyrri upptakan inniheldur fremur þögula hljóðmynd af fuglalífi svæðisins. Heyra má þó í óðinshana busla í nálægri tjörn og stöku sinnum stingur kría sér í tjörnina í fæðuleit. Vindkviður eiga það svo til að trufla upptökuna.
Í seinni upptökunni má heyra í fyrstu þotunni þennan morguninn fljúga milli Evrópu og Ameríku. Sólargeislar brjótast nú í gegnum skýin yfir Ingólfsfjalli og verma svæðið. Þegar vind svo lægir þá lyftir flugan sér í þéttum skýsveipum og með miklu suði. Önd með unga kjagar með unga sína í þéttu mýrargrasinu umhverfis hljóðnemana í fæðuleit.
Báðar upptökurnar njóta sín best sem bakgrunnshljóð heima við eða á vinnustað.

3:30 Download mp3 file (192kbps / 32Mb)

4:00 Download mp3 file (192kbps / 31,2Mb)

Recorder: Sound devices 744
Mics: Rode NT1a (NOS setup)
Pix: Canon 30D (See more pictures)
Listen to other parts of  “nature reserve in Flói 2012

 Sjá og heyra meira á: www.fieldrecording.net


Friðland í Flóa 2012 - 2. hluti.

IMG_5662

 

Hér er á ferðinni svo til beint framhald af 1. hluta, nema nú hafa hljóðnemarnir verið færðir út að tjörn norðaustur af fuglaskoðunarhúsinu. Upptakan er frá því 25. júní u.þ.b. kl. 3 eftir miðnætti. Heyra má í ýmsum fuglum í dagsins önn. Meðal fugla voru lómur, lóa, hrossagaukur, óðinshani, spói, auðnutittlingur, jaðrakan, stelkur, álft, tjaldur hettumáfur, kría, kjói og sílamáfur. Einhverjar andategundir voru svo á vappi og sveimi um svæðið á meðan á upptöku stóð. Í fjarska heyrist jarm, hundgá, hanagal og hnegg í hestum. Þegar fyrstu sólargeislarnir gægjast yfir Ingólfsfjall og verma svæðið lyftir flugan sér í þykkum sveimum með þéttu suði.
Aldrei þessu vant fer ekki mikið fyrir umferðarhávaða í þessu hljóðskeiði. Greina má þó bíla fara niður Kambana í 20 km fjarlægð. Í raun má greina ferðir þeirra frá Kömbum og fylgja þeim eftir austur fyrir Selfoss á upprunalegu upptökunni og fullum gæðum.
Þetta er lágvær upptaka. Það er því besta að spila hana á lágværum nótum eins og setið sé við opinn glugga. En fyrir þá sem vilja greina fuglategundir og önnur hljóð er mælt með að hlustað sé á upptökuna með góðum opnum heyrnartólum.
Margra klukkutíma efni var tekið upp á þessum stað. Fleiri upptökur munu því heyrast á komandi mánuðum.

Download mp3 file (192kbps / 40,3Mb)

Recorder: Sound Devices 744T
Mics: Rode NT1a (NOS setup)
Pix: Canon EOS30D (see more pictures)

 


Skepnurnar í lauginni

Snail in the sea pool

Í fjöruborðinu fyrir neðan Europe Villa Cortes GL hótelið á Tenerife er sjávarlaug. Sá ég fáar manneskjur synda í þessari laug. Hún leit því út fyrir að vera frekar líflaus. En þegar betur var að gáð var hún full af lífi. Í lauginni var urmull krabba, snigla og annarra kvikinda sem ég kann lítil deili á.
Síðla dags þann 22. desember 2011, rétt fyrir sólsetur, stakk ég hljóðnemum í laugina og gleymdi mér í rúman klukkutíma við að hlusta á einhver kvikindi gefa frá sér hljóð. Í bland við öldunið og fótatak fólks sem gekk um laugarbakkann mátti heyra ýmis hljóð. Öðru hvoru skvettust öldur inn í laugina en háværastir voru líklega sniglar sem nörtuðu botn og veggi laugarinnar í ætisleit.

Stutt hljóðrit Sækja mp3 skrá (192kbps / 4,2Mb) 

Langt hljóðrit Sækja mp3 skrá (192kbps / 28Mb)

Sjá meira og heyra á www.fieldrecording.net

Recorder: Sound Devices 744 (24bit / 48Khz)
Mic: Aquarian H2a-XLR
Pix: Olympus 4040 (underwater) and Canon 30D (See more pictures)


Ertu náttúruunnandi á ferðalgi?

hljóðnemar í náttúru

Ertu einn/ein af þeim sem fara reglulega út úr þéttbýlinu til að njóta náttúrunnar í þögn frá skarkala höfuðborgarinnar? Stundar þú skoðunarferðir, göngur, veiðar, ljósmyndun, hljóðritun eða rannsóknir í kyrrlátu umhverfi utan borgarmarkana? 

Ég ver talverðum tíma í umhverfis- og náttúruhljóðritun. Þar á meðal hljóðritanir af fuglasöng, ekki þá aðeins til að njóta heldur líka til greiningar í víðu samhengi. Fuglasöngur er ekki aðeins "einhver tjáskipti" fugla, heldur gefa hljóðin líka upplýsingar um landsvæðið sjálft, gerð þess og heilbrigði. Hljóðrit fugla og dýra geta því verið áhugaverð til frekari greiningar á vistkerfum. Það er því nokkuð ljóst að þetta verkefni getur tekið mörg ár
Gera má ráð fyrir að vistkerfi og fjölbreytileiki fugla á Suðurlandi hafi breyst mikið við framræslu mýrlendis í upphafi síðustu aldar. Nú má segja að vistkerfi á Suðurland standi aftur á tímamótum vegna trjáræktar. Fuglalíf á því eftir að breytast mikið á næstu árum, bæði þar sem og annars staðar.
Þá vita margir um breytingar hjá sjófuglum síðustu misseri um land allt sem vert er að skoða nánar.
Ég geri ráð fyrir að menn séu stöðugt að fylgjast með vistfræðilegum fjölbreytileika hér á landi en ég veit ekki til þess að nokkur sé að safna hljóðum í slíka vinnu (ef svo er væri gaman að vita af því).

Og þá kem ég að mínum vanda í þessari hljóðritasöfnun.
Ég á ekki og mun ekki fá mér bíl, því hann nýtist mér ekki neitt nema flytja upptökubúnað um langan veg. Því biðla ég til fólks sem á erindi út á land hvort það hafi tök á því að hafa hljóðmann meðferðis? Hljóðbúnaðurinn er misjafnlega fyrirferðamikill en getur tekið pláss á við "sæmilegan bakpoka"
Ég hef einnig áhuga á því að komast í samband við fólk sem sér notagildi í svona hljóðritasöfnun og hefur skoðun á því hvernig best sé að standa að verki s.s. með skráningu ýmissa umhverfisþátta. Þá væri gott að fá hugmyndir um svæði þar sem vert væri að hljóðrita og hugmyndir frá fagfólki sem sýnir þessari vinnu áhuga. Þá skal það líka tekið fram að ég get hljóðritað í vatni. Lífríki sjávar og vatna eru því allt eins á verkefnalista mínum. Sama gildir um tónlist, samkomur, mannvirki, jökla, hveri og jarðskorpuna. Í raun allt sem getur gefið frá sér hljóð frá 1Hz upp í 100Khz.
Hljóðritun á náttúru á ýmislegt sameiginlegt með kvikmyndun á náttúru. Maður þarf tíma og þolinmæði og vera á réttum stað og tíma til að takast á við viðfangsefnið. En oftar en ekki er það hið óvænta á tökustað sem gefur viðfangsefninu gildi.

Þeir sem áhuga hafa á þessu viðfangsefni og/eða eiga tök á því að hafa “hljóðmann” meðferðis í ferðir út úr skarkala höfuðborgarinnar mega endilega hafa samband við mig hvenær sem er, á hvaða árstíma sem er.

Magnús Bergsson
fieldrecording.net@gmail.com
simi: 6162904

http://fieldrecording.net


Að lokum sendi ég hér linka á viðtöl við tvo hljóðmenn með svipað efni.
http://www.cbc.ca/thecurrent/episode/2012/05/16/the-great-animal-orchestra-bernie-krause/
http://being.publicradio.org/programs/2012/last-quiet-places/


Jarðskjálftinn við Seltúnshver

 

Hér er á ferð samantekt af fimm hljóðritum sem tekin voru upp 3. apríl 2011 þegar ég og vinnufélagi minn Haukur Guðmundsson fórum dagsferð um Reykjanesið.
Byrjað var á því að fara að Kleifarvatni þar sem farið var að hverum sem komu upp á yfirborðið eftir jarðskjálftana árið 2000 þegar lækkaði skyndilega í vatninu. Ekki var þorandi að fara mjög nærri, því allt eins var víst að maður stigi fætinum í sjóðandi sandpytt.
Hljóðritið byrjar á þessum hver. Eftir það eru tvo hljóðrit frá Seltúnhverum. Við eftirvinnslu þeirra hljóðrita kom í ljós að önnur upptakan skilaði einhverjum titringi inn á hljóðritið sem erfitt var að skilja nema um jarðskjálfta hafi verið að ræða. Titringur þessi var á u.þ.b. 10 riðum. Ekki er vitað á hvaða styrk en væntanlega undir 3 á Richter.
Frá Seltúnshverum lá leiðinn eftir Suðurstarandavegi um Grindavík vestur að Gunnuhver sem fyrir okkur báðum var orðin ógnvænleg hrollvekja. Hvorugur okkar hafði farið þessa leið í langan tíma, en báðir mundum við eftir þessum hver sem litlu svæði sem gufa lagði upp frá. Nú var þetta orðið gríðar stórt svæði þar sem allt sauð og blés eins og í helvíti á jörð, gersamlega óþekkjanlegt. Það er ekki að furða þó jarðfræðingar séu á tánum yfir þessu skrímsli sem Gunnuhver er orðinn í dag. Myndavélin varð óvirk í eiturgufunum og ég var logandi hræddur um að þvælast með upptökutækin í þessum ætandi gufum. Aðeins ein upptaka náðist af þessum stað þar sem hljóðnemum var vísað í holu í útjaðri hverasvæðisins. Er það fjórði hverinn í hljóðritinu .
Frá Gunnuhver lá leiðin að framhjá Reykjanesvita niður í fjöru við Valahnjúka þar sem síðasta hljóðritið var tekið upp.

Fimm samsett hljóðrit. Sækja mp3 skrá (192kbps / 22Mb) 

Hljóðrit af jarðskjálfta. Sækja mp3 skrá (192kbps / 0,9Mb)

Sjá meira og heyra á www.fieldrecording.net

Recorders: Korg MR1000 and Sound devices 552
Mics: Rode NT4 (XY) and Rode NT2a/Sennheiser ME64 (MS)
Pix: Canon 30D (sjá meira af myndum)


Í tveimur heimum

Reykjavíkurtjörn

 

Í vetur bárust landsmönnum þær döpru fréttir að fuglalífi við Reykjavíkurtjörn hefði hrakað mikið síðustu ár. Það leiddi huga minn að því að ég ætti sama sem engin hljóðrit af fuglalífi við Tjörnina. En einhvers staðar á ég þó upptöku sem ég tók upp framan við Iðnó fyrir 30 árum.
Yfirþyrmandi umferðarniður hefur annars valdið því að ég hef ekki lagt það í vana minn að eltast við náttúruhljóð í miðbæ Reykjavíkur.
Framvegis skal verða breyting á, því spennandi verður að sjá hvort mönnum takist að endurheimta þá fugla sem verptu og komu upp ungum við Tjörnina um miðja síðustu öld .
Tvær helgar í janúar gerði ágæis veður. Arkaði ég með upptökutækin niður að Reykjavíkurtjörn sem var ísilögð. Stóð allt eins til að hljóðrita brak og bresti í ísnum, en ég komst fljótt að því að hann var ekki nógu kaldur, of mikill snjór á honum og að vanda of mikill umferðahávaði.
Fuglalífið varð því aðal viðfangsefnið þessar tvær helgar. Ákvað ég að staðsetja tækin á göngubrúnni frá Iðnó að Ráðhúsinu. Tveimur vatnahljóðnemum var stungið í Tjörnina u.þ.b. 20sm fyrir ofan botn með tveggja metra millibili. Fyrir ofan, á brúnni, voru hljóðnemar í XY uppsetningu.
Þarna má heyra hundgá, í fólki gefa öndum brauð og í útlendum ferðamönnum.
Undir yfirborði tjarnarinnar heyrast mikil skvamphljóð frá fuglum sem börðust um brauðið á yfirborðinu, einnig í skúfönd sem oftsinnis kafaði nærri hljóðnemunum. Þá heyrist málmhljóð þegar gengið er á brúnni og eitthvað slæst í burðarvirki hennar.

Sækja mp3 skrá (192kbps / 10,1Mb) Fyrir ofan tjörnina

Sækja mp3 skrá (192kbps / 10,1Mb) Bæði fyrir ofan og neðan tjarnarinnar.

Sækja mp3 skrá (192kbps / 10,1Mb) Niðrí tjörninni

Sjá og heyra meira á: www.fieldrecording.net

Recorder: Sound devices 744 w/552 preamp
Mics: Aquarian H2a-XLR (spaced omni) and Rode NT1a (XY)
Pix: Canon 30D


Í minningu pabba

17_10_63rgb_web

Faðir minn, Bergur Jónsson (f. 16.4.1934 – d. 28.9.2011), hefur líklega haft meiri áhrif á líf mitt en í fljótu bragði mætti halda. Hann kveikti áhuga minn á ýmsu s.s. skátum, hjólreiðum, ferðalögum, ljósmyndun og mjög mörgu öðru enda stundaði hann félagslíf á mörgum sviðum.
Sem rafmagsverkræðingur hafði hann að hluta líka áhrif á að ég lærði rafvirkjun, þó svo hann hafi eflaust ætlast til að ég færi í verkfræði.
Bestu minningar mínar um hann voru líklega árin 1968-1980 þegar ég fylgdi honum svo til hvert fótmál á sumrin um hálendi Íslands í tengslum við virkjanir og virkjanaáform. Þessi ár vann pabbi hjá Landsvirkjun sem verkfræðingur og síðar sem deildarverkfræðingur. Hann var því nokkuð fróður um virkjanir og orkuframleiðslu af ýmsu tagi auk þess að þekkja ýmsa afkima á hálendinu.
Sumrin á hálendinu höfðu mjög djúpstæð áhrif á mig, svo mjög að í dag tel ég ÓSPILLT víðerni hálendisins stórkotlegustu auðlind sem við Íslendingar eigum. Þessi tími með pabba hefur því mótað skoðanir mínar og líf öðru fremur en annað í mínu lífi.
Veturinn 1977-1978 var ég í Skálholtsskóla. Í hverjum mánuði komu ýmsir fyrirlesarar í skólann s.s. fulltrúar allra stjórmálaflokka og aðrir sem höfðu eitthvað fræðandi fram að færa. Ég fékk föður minn til að mæta í skólann og halda fyrirlestur um rafmagn og rafmagnsframleiðslu sem hann og gerði.
Hljóðritið sem hér fylgir var tekið upp við það tilefni. Set ég það nú á vefinn í minningu um föður minn sem ég því miður fæ ekki lengur að deila lífinu með.
Í þessu hljóðriti heyrist einnig í mönnum eins og Heimi Steinssyni rektor, Arnþóri Karlssyni bónda og kennara og Þorsteini Friðjóni Þorsteinssyni nema og miklum heimspekingi en þeir eru nú allir látnir. Einnig heyrist í Stefáni Erni Hjaltalín nema, sem nú býr í Bandaríkjunum.
Eitt það síðasta sem við feðgarnir gerðum saman, tveimur vikum fyrir dauða hans, var að fara á Google Maps og Google Earth til að leita að og skoða þá staði þar sem við áttum heima fyrstu æviár mín í Þýskalandi 1961 til 1966. Þau ár vann pabbi hjá Siemens-Schuckertwerke AG í Erlangen. Eftir flugið og heimsóknir í netheimum skrifaði hann samvikusamlega fyrir mig á hvaða sjúkrahúsi ég fæddist og heimilisföng þeirra þriggja staða þar sem ég hafði búið með foreldrum minum á þessum árum. Eitthvað sem ég hafði ætlað að fá hann til að gera í mörg ár.
Meðfylgjandi mynd var tekin í Erlangen í Þýskalandi 17. október 1963, á tveggja ára afmæli mínu, þar sem ég ligg á baki pabba sem greinilega var eitthvað að sýsla við Paragon myndavélina sína.

Sjá og heyra meira á: www.fieldrecording.net
Sækja mp3 skrá #1  Sækja mp3 skrá #2 


Hvað er undir kajaknum?

 img_0087

Þau skipti sem ég hef róið kajak á sjó hef ég oft leitt hugann að því að líklega væri meira spennandi að vera neðansjávar en ofan. Áhugi minn á lífinu neðansjávar minnkaði svo ekkert við það þegar ég fékk mér neðansjávarhljóðnema og gat farið að hlusta á þann hljóðheim sem þar er. Hljóðin sem hér heyrast voru tekin upp fimmtudaginn 11. ágúst 2011, austan við bryggjukantinn við Áburðarverksmiðjuna. Hljóðin sem þarna heyrast geta komið frá rækjum, skeljum og hrúðurkörlum en hæst heyrist í einhverju sem líkist því að verið sé að róta í möl á botninum. Þá heyrast líka hljóð sem hugsanlega koma frá sel eða hval og tíst sem líkist tísti hjá auðnutitlingi. Þó það hafi verið stafalogn á meðan á upptöku stóð þá eru drunurnar líklega tilkomnar vegna þess að létt gola leikur um hljóðnemakaplana. Fljóðtlega í upphafi hljóðritsins má heyra eitthvað snerta hljóðnemana í nokkur skipti en það er annaðhvort þang eða nart fiskiseiða sem mikið er af á þessum slóðum á þessum árstíma. Á 12. mínútu kemur stór hópur kajakræðara fyrir hornið á viðlegukantinum. Þá heyrist greinilega í áratökunum á leið þeirra inn í Eiðsvík.
Ef einhver veit hvaða skepnur það eru sem gefa frá sér hljóð í þessu hljóðriti þá er um að gera segja frá því í hér.

 Sjá og heyra meira á: www.fieldrecording.net
Sækja mp3 skrá.


Drottning drepur þernu

 img_9913c

Vorið 2011 benti allt til þess að geitungar myndu eiga erfitt uppdráttar. En það gerðist þó að trjágeitungur byrjaði að búa til hreiður yfir skúrhurðinni hjá mér. Ekki leið á löngu þar til hreiðrið var á stærð við mandarínu. Eggin, sem líklega voru allt að því 15 að tölu, fóru dag frá degi stækkandi og dökknuðu. Að staðaldri var ekki annað að sjá en að í því væru tvær þernur að sísla við eggin. Á daginn var drottningin í stanslausum ferðum, eða að meðaltali inn og út um opið á 2-4 mínútna fresti. En um nóttina fækkaði ferðum sem urðu þá á 20 – 30 mínútna fresti.
Daginn eftir að þessi upptaka fór fram, sem var 7. júlí, eyddi ég búinu því eggin voru greinilega að klekjast út, sem gert hefði alla eyðingu erfiðari.

Sjá og heyra meira á: www.fieldrecording.net
Sækja mp3 skrá #1  Sækja mp3 skrá #2

 


Úraníum umhverfisvænna en Plútóníum

Kolabruni umhverfisvænni en olíubruni. 

Déskotans bull er þetta. Fréttamiðill eins og MBL ætti ekki að senda frá sér svona þvælu. Almenningur er er nógu illa að sér í umhverfisumræðunni svo ekki þurfi að flagga bulli sem þessu.  Af fyrra bloggi að dæma þá er greinilega til fólk sem notar svona "fréttaflutning" til að réttlæta sitt heimskulega líferni.

Það væri nær að segja t.d. "Reiðhjólið líklega eina farartækið sem talist getur umhverfisvænt"

Viti menn, líklega er það bara alveg rétt.


mbl.is Jeppar umhverfisvænni en tvinnbílar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband