Bílaborgin Reykjavík verður áfram bílaborg.

Fimmtudaginn 19. júní 2008 varð mér ljóst að sú vinna sem ég hef sett í baráttu hjólreiðafólks á u.þ.b. 25 árum hefur ekki borið nokkurn árangur. Þó það hafi ekki verið mikið vinnuframlag þá hef ég sólundað nærri öllum mínum frítíma í þessi 25 ár í þetta málefni. Er mér að verða það ljóst að ég ætti að hætta þessari baráttu og finna mér eitthvað skemmtilegra að gera. Á þessum 25 árum hafa illa greindir stjórnmálamenn komið og farið, sama má segja um embættismenn borgarinnar. Líklega vegna þessa er ljóst að á þessum tíma hefur ekki tekist að koma þeim skilaboðum á framfæri til yfirvalda að borgarbúa vantar ekki fleiri hraðbrautir fyrir vélknúna umferð. Það hefur vantað aðstöðu fyrir fólk sem vill gera borgina að þeim sælureit sem hún getur verið ef stjórnvöld létu ekki stjórnast af einhverju einkennilegu sérhagsmunapoti og gegndarlausu daðri við einkabílinn. Í borgina hefur vantað aðstöðu fyrir fólk sem vill stunda vistvænar og hollar samgöngur eins og hjólreiðar. Lifa sparsömu, hollu og vistvænu lífi. Greinilega mjög flókin krafa fyrir karllæga og vélræna stjórnunarhætti.

Það sem fyllti mælinn hjá mér þann 19. júní var að meðfram Miklubraut er verið að bæta við enn einni akbrautinni fyrir vélknúin tæki. Í þetta skipti er þó verið að leggja forgangsakrein fyrir strætisvagna sem út af fyrir sig er hið besta mál þó deila megi um nauðsyn þess að bæta þurfi við enn einni akreininni. Landssamtök hjólreiðamanna sendu bréf á Reykjavíkurborgar og báðu um að samtímis yrði lögð hjólreiðabraut meðfram þessari stofnbraut borgarinnar: http://www.islandia.is/lhm/BrefLHM/2008/030608.htm,  nokkuð sem hefur verið krafa hjólreiðafólks alla tíð. Landssamtökin báðu líka um svar en hafa ekki fengið. Borgin átti svo sem ekki að þurfa að fá bréf þessa efnis miðað við hvað undan hefur gengið. En formsins vegna var það sent.  Þegar ég átti svo leið um eftir gangstíg Miklubrautar þann 19. sá ég að á því litla svæði sem eftir var fyrir hjólreiðabraut var nú verið að hlaða upp tveggja metra hárri hljóðmön. Þessi hljóðmön mun aðeins þrengja að gangandi og hjólandi vegfarendum og gera þessa leið enn torfærari að vetrarlægi. Vegna þessa má telja það öruggt að ekkert verður gert meðfram öðrum stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu þó það sé brýnasta málefnið til reiðhjólasamgangna.

Vegna þess hversu illa stjórnvöld koma fram við hjólreiðamenn með þessari framkvæmd sem og alls hins sem á undan hefur gengið þá er ég búinn að fá nóg.  Ég get ekki átt eðlileg samskipti við vanhæfa embættismenn sem draga allt faglegt staf hjólasamtakanna á asnaeyrunum svo dögum, mánuðum og árum skiptir.

Það er engin sólarupprás í gangi í málefnum hjólreiðamanna á Íslandi. Aðstaða til hjólreiða á höfuðborgarsvæðinu er verri í dag en hún var fyrir 25 árum. Það eina sem hefur batnað á þessum 25 árum er að í dag eru veður betri vegna trjágróðurs og líklega vegna hlýnandi veðurfars. Þá eru reiðhjólin og búnaður þeirra margfalt betri en áður.

Að óbreyttu sýnist mér að það verði útilokað að hjólreiðafólk fái jafnan rétt til samgangna á við þá vélknúnu á meðan borginni er stjórnað af þessu fólki. Stjórnvöld eru þvert á móti að reyna kæfa kröfu hjólreiðafólks með kjaftavaðli og síðan með röngum ákvörðunum. Þó liðin séu 27 ár frá því hjólreiðar voru leyfðar á gangstéttum, tekur hönnun gangstétta í dag ekki enn mið af því. Það sýna aðeins blindhornin.

 Ég hvet hjólreiðafólk til að hjóla á akbrautum og á forgangsakreinum. Þar er hjólreiðafólk sýnilegt, þar eru ekki glerbrot og þar getur það farið eftir eðlilegum umferðareglum. Þar þarf ekki að glíma mið kanta og beygjur, auk þess sem akbrautir fá reglulegt viðhald. Gleymum því ekki að hjólreiðamenn eiga að vera á akbrautum en eru aðeins gestir á gangsstéttum.

Ef við verðum sýnileg misvitrum bílsjúkum ráðamönnum eru fyrst líkur á því að við náum sjónum og eyrum þessara ráðamanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilberg Helgason

Það virðist ekki skipta máli með okkur hjólreiðamenn á meðan við teljumst ekki óhefðbundinn orkugjafi í samgöngum eða að við þurfum ekki að fara á sparakstursnámskeið.

Í upphafi þessa árs með hækkandi bensínverði, fallandi krónu og þrengingu í fjárhag fólks þá fékk ég þá trú að þetta væri rétti tíminn. Þeas tíminn þar sem eitthvað yrði gert í málefnum hjólreiðamanna og það yrði vonandi gert af skynsemi. Jú vissulega hefur hjólreiðamönnum fjölgað á göngustígakerfi borgarinnar og vissulega er orðið erfiðara að að hjóla þessa stíga sem anna ekki hjólandi, gangandi, gönguskíðandi, línuskautandi umferð auk fólks með barnavagna, fólk á rafmagnsskutlunum sínum og fólk með hundana sína í bandi þvert yfir fínu 2-1 stígana.
Á sama tíma eru að koma fréttir um að fólk sé að draga úr akstri, aukning hefur orðið á notkun strætó og samt... já og samt er verið að fjölga akreinum fyrir akandi umferð og þrengja að okkur hjólreiðamönnum.

Spurning hvort við þurfum ekki að fara að hittast á gatnamótum kringumýrarbrautar og miklubrautar með kaffi og meðþví í einhverju hádeginu og athuga hvort við fáum smá athygli fyrir okkar málsstað.

Vilberg Helgason, 25.6.2008 kl. 01:32

2 Smámynd: Hjóla-Hrönn

Mér sýnist þú hafa sýnt ansi mikla þrautsegju hingað til, og skil vel að þú sért svekktur og sár.  Við sem hjólum í borginni erum öll gapandi yfir framkvæmdunum á Miklubraut.  Eftir allar yfirlýsingarnar og hvatningar ráðamanna um að fólk eigi að reyna að hjóla meira og skilja bílinn eftir heima, þá er einna besta brautin til hjólreiða frá austurs til vesturs í borginni eyðilögð.  Þ.e. tækifærið til að búa slíka braut til. 

Það er enn pláss á Suðurlandsbraut, en sú leið er meira í hæðum og hólum og ekki eins miðsvæðis og Miklubrautin.  Ég myndi samt hjóla þá leið ef það kæmi góð hjólabraut þar með möguleika fyrir aðra hjólreiðamenn að taka framúr.  Sem væri með sér ljósum fyrir hjólreiðafólk eins og maður sér erlendis, t.d. í Kaupmannahöfn.

Núna hjóla ég daglega frá Smáíbúðahverfinu niður í Miðbæ og fer Sæbrautina.  Bara af því stígurinn þar er einna skárstur.  Ég sé hins vegar á Google Earth hvað ég er að taka á mig stóran óþarfa krók miðað við ef ég hjólaði Miklubrautina.

Hjóla-Hrönn, 26.6.2008 kl. 15:24

3 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Já, dapurlegt er það sem er að gerast í borginni. Ennþá erum við hjólreiðafólk ekki til í gatnagerðaáætlun. Ég styð tillögu Vilbergs að hittast í kaffipartí á stóru gatnamóti, ég er til í þetta.

Úrsúla Jünemann, 27.6.2008 kl. 22:19

4 Smámynd: Magnús Bergsson

Já, það er líklega komin tími á aðgerðir. Það er gersamlega óviðunandi að búið sé að taka frá okkur mikilvægustu samgönguleiðina. Það er vissulega enn til pláss meðfram Suðurlandsbraut en hún er stutt og hún kemur ekki í staðin fyrir Miklubraut. 

Fyrst það er ekki hægt að eiga eðlileg samskipti við borgina eða hún svona vanhæf til að takast á við verkefnin þá er best að stöðva bílumferð svo eftir því verði tekið. Yfirvöldum þykir ekkert verra en að vélknúin umferð sé stöðvuð. Því grunar mig að það verði að gerast án vitneskju lögreglu. Við ættum kannski að stefna í aðgerðir þegar ljóst er hvaða rugl er í gangi við Miklubraut. Þau ykkar sem hafið áhuga á því að gera eitthvað rótækara en að sitja heima í stofu megið senda póst á mig: nattura@netscape.net 

Verst að ég er faglega séð ekki besti maðurinn til að standa fyrir svona aðgerðum, því ef vel á að verki að vera staðið þarf góðan undirbúning, ekki síst fyrir fjölmiðla.

Ég óska því sjálfboðaliðum.

Magnús Bergsson, 27.6.2008 kl. 23:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband