Eftir að hafa séð þáttinn á YouTube í 6 bútum leiddi ég hugann að mínum fuglaupptökum þar sem segja má að fugl hafi sungið sér til ánægju fremur en annað.
Jú og viti menn ég fann eina upptöku úr garðinum frá því 9. júní 2012 undir flokknum test. Var ég þar að prófa parabóluskerm með Shure MX391/O hljóðnemum og biluðum PIP-Phantom power breyti sem ég hafði fengið sendan frá Sound Professionals.
Þó upptakan hafi sína galla þá hefur hún að geyma skemmtilega uppákomu úti í garði þetta kvöld.
Í nágrenninu var nokkuð fjörugt garðpartí með útitónleikum þegar svartþrösturinn í næsta garði fór upp á loftnet og tók lagið með hljómsveitinni. Fyrst þegar hann kom var hann jafn hljóðlátur og venjulega þar sem hann muldraði í barm sér. En skyndilega tók hann við sér og söng allt hvað af tók, svo mjög að ég hafði ekki heyrt annað eins úr barka hans frá því hann kom í hverfið nokkrum árum áður.
Því miður voru ekki réttu græjurnar á staðnum. Hljómurinn er því ekki eins góður og á verður kosið, auk þess sem hávaði frá bílaumferð er allt of mikill að vanda. En upptakan er engu síður þess virði að á hana sé hlustað.
Recorder: Sound Devices 744T
Mics: Shure MX391 fit into 54cm parabolic disk, connected to SP-XLRM-MINI-2-PHANTOM
Pics. Nokia N82
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning