Færsluflokkur: Umhverfismál

Fuglar í Seltjarnarnes fjöru 25. maí 2000

Common Eider

Það er ekki á hverjum degi sem hægt er að taka upp fuglasöng við veðurskilyrði eins og voru þessa nótt á Seltjarnarnesi 25. júní 2000. Veður var einstaklega stillt og allir fuglar voru komnir með unga. Einkenni þessarar upptöku er návígið við æðarkollur og unga þeirra sem leita fæðu í flæðarmálinu. Í mikilli nálægð er hægt að heyra buslið í ungunum og hvernig kollan kennir þeim og ver þá gegn varasömum gestum. Að auki má heyra í öðrum fuglum sem einkenna Seltjarnarnesið s.s. kríu, tjaldi, lóu og hrossagauk. Hljóðin eru síðan síbreytileg þar sem heyra má fuglahópa koma og fara í stöðugri leit sinni að fæðu.
Á sínum tíma þótti upptakan svo góð að hún endaði á CD útgáfu (sjá nánar á sölusíðu).

Download mp3 file (192kbps / 46Mb)

Sjá meira og heyra: www.fieldrecording.net 

Fleiri hljóðdæmi hjá Xeno-Canto and AudioBoo

Recorder: Sony TC-D5M (TDK MA-90mín).
Mic. Sennheiser K3U / ME20 (40cm/100° apart. Hi-Pass filter on level 1).
Pix: Canon 30D (pictures taken 2010).


Rita við Arnarstapa

Arnarstapi

Um miðjan júlí 2012 fór fjölskyldan í fimm daga ferðalag umhverfis Snæfellsnes. Eins og venja var fylgdi upptökutækið með við hvert fótmál.
Skemmtilegasta hljóðritið sem ég náði í þessari ferð var við Arnarstapa. Ekki að furða því þar er af nægu að taka. Hefði ég getað verið þar við hljóðritanir í marga daga.
Sunnan við löndunarbryggjuna er lítil klettaskora sem gefur skemmtilegan endurhljóm. Teygði ég þar hljóðnemann fram yfir klettabrúnina. Opnaðist þá afar skemmtilegur hljóðheimur sem varð til þess að ég steingleymdi mér í um klukkutíma án þess að hreyfa legg eða lið.
Allt um kring flaug rita vælandi í dagsins önn og á klettasillum mátti sjá og heyra að mikið var af ungum. Fyrir neðan hjalaði svo aldan blíðlega við klettana.
Í bakgrunni má hyra í erlendum ferðamönnum staldra við, spjalla og taka myndir. Þá heyrist einnig umgangur frá bryggjunni þar sem verið var að landa afla og eitthvað í þotuumferð.

Download mp3 file (192kbps / 45Mb)

Recorder: Sound devices 744
Mic: Audio Technica  BP4025
Pix: Canon 30D

Sjá og heyra meira á: www.fieldrecording.net  


Umferð starra

Starling Starri

Ég hef gert mikið af því undanfarnar helgar að taka upp umhverfishljóð úti í garði. Oft er ég að prófa hljóðnema, hljóðnemauppsetningar, vindhlífar eða rafhlöður. Oftar en ekki eru spörfuglar sem ég fóðra úti í garði viðfangsefnið þó ég láti mig alltaf dreyma um hið óvænta. Þessar upptökur geta verið margra klukkustunda langar og fátt annað á þeim en hávaðasöm bílaumferð. En áður en upptökunum er hent er þeim rennt í gegnum forrit sem sýna í fljótheitum hvort eitthvað áhugavert sé á þeim að finna. Ef svo er þá er það geymt.
Hér er á ferðinni eins slík upptaka. Eftir nærri fjögurra klukkustunda upptöku kom stór starrahópur í fóðrið sem lagt hafði verið fyrir þá.
Þarna spígspora og flögra fuglarnir umhverfis hljóðnemana, en stór hópur þeirra er uppi í trjánum. Hrafn er í hverfinu og fær hund til að gelta og hræðir síðan fuglana þegar hann flýgur of nærri.
Þetta er að mörgu leyti lífleg og skemmtileg upptaka. En það var eitt atriði sem varð til þess að ég var nærri búinn að henda þessari upptöku.
Ég ætla ekki að segja hvað það er, en ætla að lát hlustendum eftir að dæma upptökuna og segja frá því hvað hafi hugsanlega misfarist og fá þá til að rita ummæli hér fyrir neðan. Ég mun svo segja hvað mér finnst fyrir jól.

Download mp3 file (192kbps / 23,3Mb)

Sjá og heyra meira á: www.fieldrecording.net 

Recorder: Sound Devices 744
Mics: Sennheiser MKH30/40 (MS setup)
Pix: Canon 30D (see more pictures)


Reykjavíkurmaraþon 2012

Reykjavik Marathon

Það var ákaflega notalegt og beinlínis streitulosandi að fara niður í miðbæ Reykjavíkur, morguninn sem Reykjavíkurmaraþon var haldið þann 18. ágúst 2012. Rúmlega 13 þúsund manns voru skráðar í hlaupið sem var metþátttaka. Veðrið var gott og það besta af öllu var að miðbærinn var laus við bílaumferð. Helsti hávaðinn kom frá gjallarhorni keppnishaldara og frá tveimur flugvélum sem komu til lendingar á Reykjavíkurflugvelli.

Staðsetti ég hljóðnema í runna fyrir neðan Fríkirkjuna og lét þá fanga það sem allt snerist um þennan dag. Í upphafi hljóðritsins má heyra fólk streyma frá hægri til vinstri á leið sinni frá bílastæðum við Hringbraut niður á Lækjargötu að ráslínu. Stuttu eftir að rásmerki er gefið koma hlaupararnir 13 þúsund eins og stórfljót frá vinstri til hægri sem svo hverfur á fimm mínútum. Þegar þeir eru svo horfnir úr augsýn færist allt aftur í eðlilegt horf við Fríkirkjuveg.

Download mp3 file (192kbps / 28,2Mb)

Sjá meira og heyra: www.fieldrecording.net

Recorder: Sound Devices 744
Mics: Sennheiser MKH30/20 (MS setup)
Pics: Canon 30D (see more pictures)

 


Friðland í Flóa 2012 - 4. hluti

Óðinshani

Hér er framhald af fyrri upptökum úr friðlandi í Flóa 2012. Þessar upptökur er frá u.þ.b. kl 4:00 til 5:00, að morgni 25 júní. Hér má heyra í fuglum s.s. óðinshana, hrossagauk, stelk, lómi, spóa, kríu, hettumáfi, músarindli og maríuerlu sem og mörgum öðrum fuglum.
Nú fer flugumferð að hefjast af alvöru. Tvær millilandaþotur rjúfa þögnina í þessu hljóðriti. Er það aðeins smjörþefur af því sem síðar kom og sett verður á vefinn síðar.
Hlustist með góðum heyrnartólum.

Download mp3 file (192kbps / 53Mb)
Sjá meira og heyra á www.fieldrecording.net

Recorder: Sound Devices 744
Mics: Rode NT1a (NOS setup)
Pix: Canon 30D (see more pictures)

Friðland í Flóa 2012 - 3. hluti

Flói

Hér er framhald af fyrri upptökum úr friðlandi í Fóa 2012. Þessar upptökur er frá u.þ.b. kl 3:30 til 4:00, að morgni 25 júní.
Fyrri upptakan inniheldur fremur þögula hljóðmynd af fuglalífi svæðisins. Heyra má þó í óðinshana busla í nálægri tjörn og stöku sinnum stingur kría sér í tjörnina í fæðuleit. Vindkviður eiga það svo til að trufla upptökuna.
Í seinni upptökunni má heyra í fyrstu þotunni þennan morguninn fljúga milli Evrópu og Ameríku. Sólargeislar brjótast nú í gegnum skýin yfir Ingólfsfjalli og verma svæðið. Þegar vind svo lægir þá lyftir flugan sér í þéttum skýsveipum og með miklu suði. Önd með unga kjagar með unga sína í þéttu mýrargrasinu umhverfis hljóðnemana í fæðuleit.
Báðar upptökurnar njóta sín best sem bakgrunnshljóð heima við eða á vinnustað.

3:30 Download mp3 file (192kbps / 32Mb)

4:00 Download mp3 file (192kbps / 31,2Mb)

Recorder: Sound devices 744
Mics: Rode NT1a (NOS setup)
Pix: Canon 30D (See more pictures)
Listen to other parts of  “nature reserve in Flói 2012

 Sjá og heyra meira á: www.fieldrecording.net


Hljóðin í Víðgelmi í Hallmundarhrauni

Viðgelmir í Hallmundarhrauni

Víðgelmir er einn af lengstu (1.585 m) hellum landsins og rúmtaksmestu (148.000 m³) hraunhellum heims. Hann er í Hallmundarhrauni, u.þ.b. 2 km suðaustur af Fljótstungu í Hvítársíðu. Þak hellisins hefur hrunið á allstórum kafla, nærri norðurenda hans, og er það eini inngangurinn. Hellirinn er víður fremst en þrengist á köflum þegar innar dregur. Þar var, í október árið 1991 sett upp járnhlið af félagsmönnum í Hellarannsóknafélagi Íslands til að vernda þær dropasteinsmyndanir sem ekki hafa þegar verið eyðilagðar. Mannvistarleifar sem fundust í hellinum eru varðveittar í Þjóðminjasafninu og eru að líkindum frá víkingaöld. Hellirinn er á köflum afar erfiður yfirferðar og tæpast ráðlegt að fara um hann nema með leiðsögumanni. Leiðsögn og aðgangur að innri hluta hellisins er fáanleg frá Fljótstungu.
Hellirinn var lokaður af ís frá árinu 1918 til ársins 1930 en hann lokaðist aftur um veturinn 1972-1973. Í apríl 1990 fór hópur á vegum Hellarannsóknafélags Íslands með tól og tæki og freistaði þess að opna hellinn. Ekki tókst það að þessu sinni en árið eftir tóku nokkrir heimamenn af bæjum í Hvítársíðu og Hálsasveit sig saman, undir forystu Kristleifs Þorsteinssonar bónda í Húsafelli og kláruðu verkið (*Wikipedia)

Download mp3 file. (192kbps / 28,1Mb)
Sjá og heyra meira á: www.fieldrecording.net

Recorder. Sound devices 788
Mic: Rode NT1a (NOS)
Pic: Canon 30D. Sjá fleiri myndir pictures at Google. Og myndir sem teknar voru í þessari upptökuferð þó myndavélin hafi ekki virkað sem skildi.

Tónverk fyrir háspennustrengi, bassa, vind og fugla.

 

Það er ekki á hverjum degi sem maður fær frið frá þrúgandi véladrunum höfuðborgarinnar. En þegar það gerist þá opnast heimur ýmissa annarra hljóða sem venja er að framhjá manni fari. Það gerðist einmitt við Krossholt á Barðaströnd í byrjun júní 2012.
Nótt eina var einhver í nágrenninu að spila tónlist með þungum bassa alla nóttina. Rétt fyrir miðnætti tók vindinn upp og áttin breyttist. Þá gerðist það undraverða. Háspennulína í nágrenninu fór að klappa saman strengjum og gefa frá sér són. Skyndilega breyttust pirrandi taktföstu bassadrunurnar í skemmtilegan og framandi undirleik með strengjaleik háspennulínunnar. Söngur mó- og bjargfugla bættist svo við í bakgrunni eins og til að fullkomna tónverkið. Í fúlustu alvöru, þetta tónverk slær flestu því sem ég hef heyrt í langan tíma. Tónleikarnir stóðu frá kvöldi og langt fram undir morgun með ýmsum blæbrigðum með fjölbreyttu lagavali. Því miður tók ég aðeins upp tvö og hálft tónverk. Er fyrra heila tónverkið að finna hér.
Mælt er með að á þetta sé hlustað með góðum heyrnartólum.

Download mp3 file (192kbps / 34,7Mb)
Sjá og heyra meira á: www.fieldrecording.net

Recorder: Sound Devices 744 (24bit/48Khz)
Mics: Rode NT1a.  NOS setup.
Pix: Canon 30D
Áhugaverður linkur: Wired Lab


Það gustar um Mariuerlu

Það var um júróvisjonhelgina 2012 sem fjölskyldan fór í orlofshús við Apavatn. Veðrið var ágætt að sunnlenskum hætti. Sól, en fremur svalt og gekk á með norðan rokum.
Mikið var um fólk á svæðinu. Því var umtalsverður skarkali, ekki síst á leiktækjasvæðinu þar sem meðal annars var risavaxið trampólín. Þar hoppuðu börn sem fullorðnir ákafast eins og heyra má í bakgrunni.
Öldur börðu grjótið við vatnið og vindur gnauðaði í trjánum. Við hvert orlofshús var grenitré og virtust fuglar hafa hreiður í þeim öllum. Maríuerla ein var stöðugt á vappi við sólpallinn og góndi reglulega inn um gluggan hjá okkur. Þegar ég svo setti hljóðnemana út fyrir hús gerði hún sér litið fyrir og tísti góða aríu í gegn um rokið.

Sjá og heyra meira á: www.fieldrecording.net
Download mp3 file (192kbps / 24,6mb)

Recorder: Sound devices 744
Mic: Rode NT2a in spaced omni (60cm AB setup )


Skepnurnar í lauginni

Snail in the sea pool

Í fjöruborðinu fyrir neðan Europe Villa Cortes GL hótelið á Tenerife er sjávarlaug. Sá ég fáar manneskjur synda í þessari laug. Hún leit því út fyrir að vera frekar líflaus. En þegar betur var að gáð var hún full af lífi. Í lauginni var urmull krabba, snigla og annarra kvikinda sem ég kann lítil deili á.
Síðla dags þann 22. desember 2011, rétt fyrir sólsetur, stakk ég hljóðnemum í laugina og gleymdi mér í rúman klukkutíma við að hlusta á einhver kvikindi gefa frá sér hljóð. Í bland við öldunið og fótatak fólks sem gekk um laugarbakkann mátti heyra ýmis hljóð. Öðru hvoru skvettust öldur inn í laugina en háværastir voru líklega sniglar sem nörtuðu botn og veggi laugarinnar í ætisleit.

Stutt hljóðrit Sækja mp3 skrá (192kbps / 4,2Mb) 

Langt hljóðrit Sækja mp3 skrá (192kbps / 28Mb)

Sjá meira og heyra á www.fieldrecording.net

Recorder: Sound Devices 744 (24bit / 48Khz)
Mic: Aquarian H2a-XLR
Pix: Olympus 4040 (underwater) and Canon 30D (See more pictures)


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband