14.5.2008 | 12:11
Reglnarugl á göngustígum
Fyrir u.þ.b. 15 árum fór Reykjavikurborg að merkja einstaka göngustíga með hjólareinum. (svonefndir1+2 stígar). Þessi ákvörðun var ekki vel ígrunduð því að með þessum framkvæmdum urðu allar umferðarreglur gangandi og hjólandi vegfarenda einungis ruglingslegri en áður. Reynslan hefur sýnt að þessir 1+2 - stígar hafa ekki bætt öryggi vegfarenda, því að í stað þess að þar ríki einföld hægriregla gilda þar nú allt að 6 mismunandi umferðarreglur, eins og hér á eftir verður lýst. Þetta var ódýr en alröng tilraun til að koma til móts við óskir hjólreiðafólks sem bað um hjólreiðabrautir aðskildar frá göngustígum.
Óljósar umferðarreglur = minnkað umferðaröryggi
Dæmi um mismunandi umferðarreglur á göngustígum borgarinnar:
# Þegar hjólarein er ekki afmörkuð á göngustíg ríkir hefðbundin hægriregla og varúðarregla (eins og á akvegum).
# Hjólareinar eru svo mjóar, að hjólreiðamenn geta ekki mæst á þeim. Ef hjólareinin er vinstra megin í ferðastefnu á að hjóla fram úr öðrum hjólreiðamanni honum á hægri hönd en gangandi vegfaranda er mætt vinstra megin. Ef hjólreiðamaður mætir eða hjólar fram úr öðrum hjólreiðamanni þarf hann vegna þrengsla á hjólastígnum að víkja til hægri út á göngustíginn. Þetta veldur óvissri réttarstöðu hjólreiðamannsins ef slys verða.
# Þegar hjólareinin er hægra megin í ferðastefnu á hjólreiðamaður að halda sig sem lengst til hægri á stígnum. Hann þarf hins vegar að víkja til vinstri og væntanlega út á göngustíginn þegar hann þarf að hjóla fram úr öðrum hjólreiðamanni.
# Á sama stígnum getur hjólareinin stundum verið hægra megin og annars staðar vinstra megin. Þar á milli er engin hjólarein eins og sjá má á Fossvogsstígnum. Ástandið getur því verið mjög ruglingslegt og valdið öryggisleysi, einkum á meðan ekki hafa verið gefnar út neinar sérstakar umferðarreglur á stígum sem þannig er ástatt um.
# Á öðrum stígum getur hjólareinin birst og horfið eins og oft hefur gerst meðfram Sæbrautinni. Hjólreiðamenn þurfa því ýmist að fara fram úr gangandi eða hjólandi umferð vinstra- eða hægra megin, allt eftir því hvort línan er til staðar eða ekki. Þá er heldur ekki sama hvort gangandi eða hjólandi umferð er mætt, eins og áður segir.
# Þegar snjór liggur yfir stígum og merkingar eru huldar, ríkja óljósar umferðarreglur, enda ekki venjan að þar ríki staðfestar umferðarreglur. Þeir sem muna hvorum megin hjólareinin er gætu verið á "röngum" stað í huga þess hjólreiðamanns eða göngumanns, sem þeir mæta og ætla að fylga hægri reglunni.
# Það orkar mjög tvímælis að merkja aðskilnaðarlínu með óbrotinni línu því að ljóst er, að tveir hjólreiðamenn geta ekki mæst eða verið samhliða á því þrönga svæði sem þeim er úthlutað. Það er lögbrot að fara yfir óbrotna linu.
# Ef slys verður, er skaðabótaskylda afar óljós og hætta á að hún verði dæmd eftir mismunandi sjónarmiðum þeirra, sem um málið fjalla. Tryggingafélög dæma alltaf fyrst - væntanlega oftar en ekki - sér í hag
# Þau sveitarfélög sem merkt hafa stíga með 1+2 - línu hafa aldrei gefið út sérstakar umferðarreglur sem gilda á þessum stígum. Þau hafa hvorki haft umferðaröryggi í huga né heldur haft samráð við hagsmunaðaila.
Allt þetta reglnarugl getur ekki talist sérlega uppbyggjandi og ekki að furða þótt ruglið haldi áfram þegar fólk fer svo að aka bílum á vegum landsins
Í vetur sem leið féllst Reykjavíkurborg á beiðni Landssamtaka hjólreiðamanna að fjarlæga þessar línur sem afmarka hjólareinar á göngustígum. Verður það vonandi gert fyrir 40 ára afmæli "H-dagsins" 26. maí n.k. Í framhaldi af því mun borgin svo vonandi kynna í allt sumar hefðbundna hægrireglu á göngstígum um leið og hún hefst handa við lagningu nothæfra hjólreiðabrauta meðfram stofnbrautum borgarinnar.
Magnús Bergsson
Er í stjórn Landssamtaka hjólreiðamanna
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Jamm, sammála.
steinimagg, 14.5.2008 kl. 22:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.