Færsluflokkur: Umhverfismál

Ertu náttúruunnandi á ferðalgi?

hljóðnemar í náttúru

Ertu einn/ein af þeim sem fara reglulega út úr þéttbýlinu til að njóta náttúrunnar í þögn frá skarkala höfuðborgarinnar? Stundar þú skoðunarferðir, göngur, veiðar, ljósmyndun, hljóðritun eða rannsóknir í kyrrlátu umhverfi utan borgarmarkana? 

Ég ver talverðum tíma í umhverfis- og náttúruhljóðritun. Þar á meðal hljóðritanir af fuglasöng, ekki þá aðeins til að njóta heldur líka til greiningar í víðu samhengi. Fuglasöngur er ekki aðeins "einhver tjáskipti" fugla, heldur gefa hljóðin líka upplýsingar um landsvæðið sjálft, gerð þess og heilbrigði. Hljóðrit fugla og dýra geta því verið áhugaverð til frekari greiningar á vistkerfum. Það er því nokkuð ljóst að þetta verkefni getur tekið mörg ár
Gera má ráð fyrir að vistkerfi og fjölbreytileiki fugla á Suðurlandi hafi breyst mikið við framræslu mýrlendis í upphafi síðustu aldar. Nú má segja að vistkerfi á Suðurland standi aftur á tímamótum vegna trjáræktar. Fuglalíf á því eftir að breytast mikið á næstu árum, bæði þar sem og annars staðar.
Þá vita margir um breytingar hjá sjófuglum síðustu misseri um land allt sem vert er að skoða nánar.
Ég geri ráð fyrir að menn séu stöðugt að fylgjast með vistfræðilegum fjölbreytileika hér á landi en ég veit ekki til þess að nokkur sé að safna hljóðum í slíka vinnu (ef svo er væri gaman að vita af því).

Og þá kem ég að mínum vanda í þessari hljóðritasöfnun.
Ég á ekki og mun ekki fá mér bíl, því hann nýtist mér ekki neitt nema flytja upptökubúnað um langan veg. Því biðla ég til fólks sem á erindi út á land hvort það hafi tök á því að hafa hljóðmann meðferðis? Hljóðbúnaðurinn er misjafnlega fyrirferðamikill en getur tekið pláss á við "sæmilegan bakpoka"
Ég hef einnig áhuga á því að komast í samband við fólk sem sér notagildi í svona hljóðritasöfnun og hefur skoðun á því hvernig best sé að standa að verki s.s. með skráningu ýmissa umhverfisþátta. Þá væri gott að fá hugmyndir um svæði þar sem vert væri að hljóðrita og hugmyndir frá fagfólki sem sýnir þessari vinnu áhuga. Þá skal það líka tekið fram að ég get hljóðritað í vatni. Lífríki sjávar og vatna eru því allt eins á verkefnalista mínum. Sama gildir um tónlist, samkomur, mannvirki, jökla, hveri og jarðskorpuna. Í raun allt sem getur gefið frá sér hljóð frá 1Hz upp í 100Khz.
Hljóðritun á náttúru á ýmislegt sameiginlegt með kvikmyndun á náttúru. Maður þarf tíma og þolinmæði og vera á réttum stað og tíma til að takast á við viðfangsefnið. En oftar en ekki er það hið óvænta á tökustað sem gefur viðfangsefninu gildi.

Þeir sem áhuga hafa á þessu viðfangsefni og/eða eiga tök á því að hafa “hljóðmann” meðferðis í ferðir út úr skarkala höfuðborgarinnar mega endilega hafa samband við mig hvenær sem er, á hvaða árstíma sem er.

Magnús Bergsson
fieldrecording.net@gmail.com
simi: 6162904

http://fieldrecording.net


Að lokum sendi ég hér linka á viðtöl við tvo hljóðmenn með svipað efni.
http://www.cbc.ca/thecurrent/episode/2012/05/16/the-great-animal-orchestra-bernie-krause/
http://being.publicradio.org/programs/2012/last-quiet-places/


Jarðskjálftinn við Seltúnshver

 

Hér er á ferð samantekt af fimm hljóðritum sem tekin voru upp 3. apríl 2011 þegar ég og vinnufélagi minn Haukur Guðmundsson fórum dagsferð um Reykjanesið.
Byrjað var á því að fara að Kleifarvatni þar sem farið var að hverum sem komu upp á yfirborðið eftir jarðskjálftana árið 2000 þegar lækkaði skyndilega í vatninu. Ekki var þorandi að fara mjög nærri, því allt eins var víst að maður stigi fætinum í sjóðandi sandpytt.
Hljóðritið byrjar á þessum hver. Eftir það eru tvo hljóðrit frá Seltúnhverum. Við eftirvinnslu þeirra hljóðrita kom í ljós að önnur upptakan skilaði einhverjum titringi inn á hljóðritið sem erfitt var að skilja nema um jarðskjálfta hafi verið að ræða. Titringur þessi var á u.þ.b. 10 riðum. Ekki er vitað á hvaða styrk en væntanlega undir 3 á Richter.
Frá Seltúnshverum lá leiðinn eftir Suðurstarandavegi um Grindavík vestur að Gunnuhver sem fyrir okkur báðum var orðin ógnvænleg hrollvekja. Hvorugur okkar hafði farið þessa leið í langan tíma, en báðir mundum við eftir þessum hver sem litlu svæði sem gufa lagði upp frá. Nú var þetta orðið gríðar stórt svæði þar sem allt sauð og blés eins og í helvíti á jörð, gersamlega óþekkjanlegt. Það er ekki að furða þó jarðfræðingar séu á tánum yfir þessu skrímsli sem Gunnuhver er orðinn í dag. Myndavélin varð óvirk í eiturgufunum og ég var logandi hræddur um að þvælast með upptökutækin í þessum ætandi gufum. Aðeins ein upptaka náðist af þessum stað þar sem hljóðnemum var vísað í holu í útjaðri hverasvæðisins. Er það fjórði hverinn í hljóðritinu .
Frá Gunnuhver lá leiðin að framhjá Reykjanesvita niður í fjöru við Valahnjúka þar sem síðasta hljóðritið var tekið upp.

Fimm samsett hljóðrit. Sækja mp3 skrá (192kbps / 22Mb) 

Hljóðrit af jarðskjálfta. Sækja mp3 skrá (192kbps / 0,9Mb)

Sjá meira og heyra á www.fieldrecording.net

Recorders: Korg MR1000 and Sound devices 552
Mics: Rode NT4 (XY) and Rode NT2a/Sennheiser ME64 (MS)
Pix: Canon 30D (sjá meira af myndum)


Í tveimur heimum

Reykjavíkurtjörn

 

Í vetur bárust landsmönnum þær döpru fréttir að fuglalífi við Reykjavíkurtjörn hefði hrakað mikið síðustu ár. Það leiddi huga minn að því að ég ætti sama sem engin hljóðrit af fuglalífi við Tjörnina. En einhvers staðar á ég þó upptöku sem ég tók upp framan við Iðnó fyrir 30 árum.
Yfirþyrmandi umferðarniður hefur annars valdið því að ég hef ekki lagt það í vana minn að eltast við náttúruhljóð í miðbæ Reykjavíkur.
Framvegis skal verða breyting á, því spennandi verður að sjá hvort mönnum takist að endurheimta þá fugla sem verptu og komu upp ungum við Tjörnina um miðja síðustu öld .
Tvær helgar í janúar gerði ágæis veður. Arkaði ég með upptökutækin niður að Reykjavíkurtjörn sem var ísilögð. Stóð allt eins til að hljóðrita brak og bresti í ísnum, en ég komst fljótt að því að hann var ekki nógu kaldur, of mikill snjór á honum og að vanda of mikill umferðahávaði.
Fuglalífið varð því aðal viðfangsefnið þessar tvær helgar. Ákvað ég að staðsetja tækin á göngubrúnni frá Iðnó að Ráðhúsinu. Tveimur vatnahljóðnemum var stungið í Tjörnina u.þ.b. 20sm fyrir ofan botn með tveggja metra millibili. Fyrir ofan, á brúnni, voru hljóðnemar í XY uppsetningu.
Þarna má heyra hundgá, í fólki gefa öndum brauð og í útlendum ferðamönnum.
Undir yfirborði tjarnarinnar heyrast mikil skvamphljóð frá fuglum sem börðust um brauðið á yfirborðinu, einnig í skúfönd sem oftsinnis kafaði nærri hljóðnemunum. Þá heyrist málmhljóð þegar gengið er á brúnni og eitthvað slæst í burðarvirki hennar.

Sækja mp3 skrá (192kbps / 10,1Mb) Fyrir ofan tjörnina

Sækja mp3 skrá (192kbps / 10,1Mb) Bæði fyrir ofan og neðan tjarnarinnar.

Sækja mp3 skrá (192kbps / 10,1Mb) Niðrí tjörninni

Sjá og heyra meira á: www.fieldrecording.net

Recorder: Sound devices 744 w/552 preamp
Mics: Aquarian H2a-XLR (spaced omni) and Rode NT1a (XY)
Pix: Canon 30D


Friðland í Flóa 2011 – annar hluti

 Floi IMG_9617

Hér er svo til beint framhald af “Friðland í Flóa 2011 – fyrsta hluta” sem birt var í nóvember s.l.
Hér er klukkan líklega milli 02-03. Fátt meira er um þetta hljóðrit að segja en sagt var í fyrri færslu, nema að hér er bílaumferðin í lágmarki og í hennar stað er farið að heyrast í flugumferð.
Þeir sem telja sig þekkja fuglana sem heyrist í, ættu endilega að segja frá því með því að smella á linkinn hér fyrir neðan; ”Bæta við athugasemd”.

Sjá og heyra meira á: www.fieldrecording.net
Sækja mp3 skrá.  

Recorder: Korg MR1000 w/Sound devises 552 mixer. 24bit/48Khz
Mics: Rode NT1a.  NOS setup 30cm/90°
Pix: Canon 30D (see more pictures)


Friðland í Flóa sumarið 2011 – 1. hluti

IMG_9627a

Fyrir rúmu ári setti ég á vefinn upptöku af fuglalífinu í friðlandinu í Flóa. Eftir þá ferð var ég harðákveðinn að koma aftur ári síðar.
Dagana yfir sumarsólstöður nú í sumar tjaldaði ég því við Eyrarbakka með allt mitt hafurtask.
Nú kom ég líka með suðminni magnara og hljóðnema. Rétt fyrir miðnætti lagði ég af stað frá tjaldsvæðinu við Eyrarbakka og hjólaði með tæki og tól inn á friðlandið. Það var ákveðið að taka upp alla nóttina, helst í 12 tíma, eða á meðan rafhlöður entust.
Veður var gott. Í raun nákvæmlega það sama og árið áður. Hiti u.þ.b. 5-7° C, léttskýjað og breytileg vindátt. Vindstyrkur var frá því að vera logn allt að 8 m/s sem því miður má stundum heyra í þessari löngu upptöku. Yfir daginn fór vindstyrkur upp í 15 m/s sem heyra má í hljóðfærslu frá því í ágúst s.l.
Með nýjum hljóðnemum varð útkoman skárri en árið áður.
Þó enn heyrist suð í tækjum (hvítt suð) þá skiluðu þau ágætum upptökum af ótrúlega lágværum hljóðum sem vart voru merkjanleg með berum eyrum. Þá var ekki hjá því komist að hljóðnemarnir tækju upp hljóð frá bílaumferð sem gátu ekki annað en verið í margra kílómetra fjarlægð, því ekki sást til allra þeirra sem heyrðust á hljóðritinu þessa nótt. Þá er suðið í briminu út með suðurströndinni mjög greinilegt. Breytti engu þó ég reyndi að koma hljóðnemunum í skjól og beina þeim í aðra átt.
Í upptökunni má heyra í mörgum fuglum. Ég ætla að láta hlustendur um að þekkja þá og koma með nöfn þeirra með því að “Rita ummæli” hér fyrir neðan.

Sjá og heyra meira á: www.fieldrecording.net
Sækja mp3 skrá.

 


Hvað er undir kajaknum?

 img_0087

Þau skipti sem ég hef róið kajak á sjó hef ég oft leitt hugann að því að líklega væri meira spennandi að vera neðansjávar en ofan. Áhugi minn á lífinu neðansjávar minnkaði svo ekkert við það þegar ég fékk mér neðansjávarhljóðnema og gat farið að hlusta á þann hljóðheim sem þar er. Hljóðin sem hér heyrast voru tekin upp fimmtudaginn 11. ágúst 2011, austan við bryggjukantinn við Áburðarverksmiðjuna. Hljóðin sem þarna heyrast geta komið frá rækjum, skeljum og hrúðurkörlum en hæst heyrist í einhverju sem líkist því að verið sé að róta í möl á botninum. Þá heyrast líka hljóð sem hugsanlega koma frá sel eða hval og tíst sem líkist tísti hjá auðnutitlingi. Þó það hafi verið stafalogn á meðan á upptöku stóð þá eru drunurnar líklega tilkomnar vegna þess að létt gola leikur um hljóðnemakaplana. Fljóðtlega í upphafi hljóðritsins má heyra eitthvað snerta hljóðnemana í nokkur skipti en það er annaðhvort þang eða nart fiskiseiða sem mikið er af á þessum slóðum á þessum árstíma. Á 12. mínútu kemur stór hópur kajakræðara fyrir hornið á viðlegukantinum. Þá heyrist greinilega í áratökunum á leið þeirra inn í Eiðsvík.
Ef einhver veit hvaða skepnur það eru sem gefa frá sér hljóð í þessu hljóðriti þá er um að gera segja frá því í hér.

 Sjá og heyra meira á: www.fieldrecording.net
Sækja mp3 skrá.


Drottning drepur þernu

 img_9913c

Vorið 2011 benti allt til þess að geitungar myndu eiga erfitt uppdráttar. En það gerðist þó að trjágeitungur byrjaði að búa til hreiður yfir skúrhurðinni hjá mér. Ekki leið á löngu þar til hreiðrið var á stærð við mandarínu. Eggin, sem líklega voru allt að því 15 að tölu, fóru dag frá degi stækkandi og dökknuðu. Að staðaldri var ekki annað að sjá en að í því væru tvær þernur að sísla við eggin. Á daginn var drottningin í stanslausum ferðum, eða að meðaltali inn og út um opið á 2-4 mínútna fresti. En um nóttina fækkaði ferðum sem urðu þá á 20 – 30 mínútna fresti.
Daginn eftir að þessi upptaka fór fram, sem var 7. júlí, eyddi ég búinu því eggin voru greinilega að klekjast út, sem gert hefði alla eyðingu erfiðari.

Sjá og heyra meira á: www.fieldrecording.net
Sækja mp3 skrá #1  Sækja mp3 skrá #2

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband