Umhverfis- og samgöngusvið fær ábendingu

Föstudaginn var fór ég á vef Reykjavíkur og sendi ábendingu um vetrarhreinsun gangstétta. Fyrir hjólreiðafólk er ástandið á gangstéttum alveg skelfilegt. Ekki er hægt að bjóða fólki upp á að fara eftir akbrautum þó það séu einu samgönguæðar höfuðborgarsvæðisins. Því verður hjólreiðafólk að sætta sig við gangstíga sem eru annaðhvort illa ruddir eða flughálir, ekki síst vegna sands sem oftast er dreift á röngum tíma og við rangar aðstæður. Það hafa líklega allir hjólreiðamenn fyllt skóna sína af sandi eða skautað eftir flughálum og klakalausum stígum þegar síst skyldi.

Verður spennandi að sjá hvort ábendingin sem ég sendi beri árangur í þessari viku. Fram til þessa hef ég ekki vanist því að borgin taki tillit til ábendinga minna. En ábendingin hljóðaði svo:

 

Efni: Færð á göngustígum

Góðan dag.

Þar sem nú er að koma hlýindakafli í veðráttu þá hvet ég borgina til að losa klakann af gangstéttum meðfram stofn og tengivegum borgarinnar.

Það hefur verið mjög illa staðið að snjóruðningi á gangstéttum í vetur. Það hefur svo sem ekki vantar tækin en þau hafa aðeins skafið efsta lagið á snjónum. Þá hefur sést til traktorana hossast eftir göngustígunum án þess að skafa en þess í stað dreift sandi í lausan snjó. Tækin verða að skafa stígana betur og hætta að bera sand í hvítan snjó. Sand á bara að dreifa í neyð á stíga sem eru glerjaðir af klaka.´

Nú hefur skapast veðurlag til að losa klakann sem myndast hefur vegna lélegs snjóruðnings. Þegar klakinn er farinn þarf ekki að bera sand á stígana. Sandur er það versta sem hægt er að bjóða hjólandi fólki á sama hátt og engum dytti í hug að bera möl á helstu akbrautir borgarinnar.

Ég hvet borgina til að taka sandinn af göngustígunum um leið og snjó tekur upp í þessari viku eða næstu. Fyrir utan slysahættu sem sandurinn veldur er mikið um glerbrot á göngustígum um alla borg.

Ég vill taka það fram að ég er ekki að biðja um aðgerðir á gangstéttum um alla borg heldur aðeins á þeim gangstéttum sem teljast til stofn og tengistíga meðfram umferðaþyngstu götum borgarinnar.

Kveðja

Magnús B


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Góð ábending, Magnús. Ég fyrir minn part hjóla bara þar sem best gengur að hjóla. Ef stigarnir eru í klaka eða illa sópaðir þá hjólar ég á götunni, það er ekki um annað að ræða.

Úrsúla Jünemann, 16.2.2009 kl. 16:23

2 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

Góð ábending hjá þér, vona að þú fáir svar og deilir því með okkur.

Sóley Björk Stefánsdóttir, 16.2.2009 kl. 20:20

3 Smámynd: Magnús Bergsson

Svar berst frá Reykjavíkurborg....


Ólafur Bjarnason wrote:


Sæll Magnús

Öfugt við það sem þú segir hef ég heyrt frekar jákvæð ummæli um hreinsun stíga upp á síðkastið.
Í þeirri þröngu fjárhagsstöðu sem borgin er verður óhjákvæmilega mikil aðhaldssemi er varðar hreinsun og frekar dregið úr en hitt.
Eins og færið hefur verið að undanförnu þá hefur myndast klaki á stígum og þeir verið sandbornir til að draga úr hálku. Þegar snjór og klaki fer verður sandurinn eftir.
Ekki hefur verið farið út í að salta göngu eða hjólastíga. Vera má að sérstakir hjólastíga megi salta en göngustígar verða ekki saltaðir.
Ágætt að ræða verklag við vetrarhreinsun og við erum tilbúnir að hlusta á tillögur um það sem betur má fara, sérstakleg er varðar sparnað.


Kveðjur

Ólafur Bjarnason
Samgöngustjóri - Transport director




...og ég svara...


Sæll Ólafur

Takk fyrir skjót svör
Það má vissulega finna gangstíga sem eru ágætlega ruddir snjó miðað við aðstæður (t.d. Fossvogur). En það sem ég er að tala um eru stígar meðfram helstu samgönguæðum borgarinnar. Ástandið hefur t.d. verið skelfilegt meðfram Miklubraut (gæði snjóruðnings virðast að hluta til bundin við einstaka tækjamenn).
Snjóhreinsun akbrauta er stunduð alla daga óháð tíma. Eftir snjóhreinsun hefst kantsnyrting sem alltaf fær að bitna á gangstéttum. Ef það snjóar á föstudegi þá sést ekki snjóruðningstæki á gangstéttum fyrr en á mánudegi. Það er það nær undantekningalaust of seint. Því miður tekur hönnun gangstétta ekki mið af því að auðvelt sé að stunda snjóruðning frekar en að á þeim séu stundaðar hjólreiðar. Því er ófærð yfir vetrarmánuðina oftast nær "manngerð" á höfuðborgarsvæðinu.
Sandur er mjög óheppilegur fyrir hjólreiðafólk á malbikuðum stígum. Þeir sem stunda hjólreiðar allt árið komast ekki hjá því að vera á negldum dekkjum. Sandur gerir því meira ógagn en gagn fyrir hjólreiðafólk. Salt er einnig óheppilegt efni, ekki síst í því mæli sem notað er á akbrautum. Ef hanna á hjólreiðabrautir verður að taka mið af því að auðvelt sé að stunda raunverulega snjóhreinsun á sama hátt og á akbrautum en án sands og salts. Í dag er snjór og klaki farinn, en gangstéttir eru samt sem áður flughálar og flestir hjólreiðamenn með fulla skó af sandi. Þá eru glerbrot líka víða orðin skæð.
Ég tel það mögulegt að borgin geti bæði sparað og bætt vetrarhreinsun með því að taka mið af veðri og öðrum aðstæðum. Það er allavega tilraunarinnar virði. Ég mun væntanlega senda þér tillögu síðar.

Kveðja
Magnús Bergsson

Magnús Bergsson, 19.2.2009 kl. 03:01

4 Smámynd: steinimagg

Já ég er alveg sammála þér í þessu, stígarnir hafa því miður alla tíð verið frekar illa ruddir, og sandurinn á þeim er slæmur fyrir okkur sem hjólum á þeim.

Kv úr Mosó

steinimagg, 19.2.2009 kl. 22:10

5 identicon

Ég er því miður ekki samgönguhjólari yfir vetrartímann, þ.e. ég hjóla ekki til og frá vinnu, en hef gaman af hjólreiðum og öllu þeim tengdum. Fór út í gær og hjólaði stígana í Öskjuhlíð og á Seltjarnarnesi út að Gróttu. Kom heim eins og drullusvað, sveifar og kassettur á kafi í sandi og skórnir líka.

Hér að neðan má sjá hvernig þeir í kaupmannahöfn halda hjólreiðarstígum sínum hreinum að vetri til. Þetta virðist ekkert sérstaklega flókið:

http://www.copenhagenize.com/2009/02/keeping-flow-flowing.html

http://www.copenhagenize.com/2009/02/winter-cycling.html

http://www.copenhagenize.com/2009/02/winter-bicycle-lanes-in-copenhagen.html

http://www.copenhagenize.com/2009/02/winter-rush-hour-in-copenhagen.html

http://www.copenhagenize.com/2009/02/snowstorm-in-copenhagen.html

Það sem þarf er ekkert minna en ný hugsun í samgöngumálum, bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og á landsvísu. Það er öfundsvert hversu skýr hugsun er í kringum þessi mál hjá frændum okkar Dönum. Nýlega sagði fjármálaráðherrann þar í landi að samgönguáætlun þeirra væri að 2/3 hluta græn og 1/3 svört: "Meaning two-thirds of the 94 billion kroner [€12.5 billion/$16 billion] budget will go to collective traffic and bicycles and one-third to asphalt/roads." (Um þetta má lesa nánar hér: http://www.copenhagenize.com/2009/01/94-billion-for-bikes.html)

Það væri gaman að sjá samanburð á þessu og hvernig þetta er hérna heima. Hversu stór hluti af útgjöldum til samgöngumála fara í annað en malbik og bílatengd mál, og hversu sorglega lítið er eyrnamerkt annars konar samgöngum (hjólreiðum og strætó t.d.)?

Brynjar (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 12:44

6 Smámynd: Magnús Bergsson

Annað svar kemur frá Reykjavíkurborg

Guðbjartur Sigfússon wrote:

Góðan daginn !
Ekki kemur til greina að sópa almennt sand af göngu- og hjólastígum borgarginnar að' svo stöddu.  Hér ríkir KREPPA í þjóðfélaginu
og ekki síst hjá borginni.  Sem sagt aðhald í útgjöldum.
Hins vegar væri mjög gott að fá að vita hvar glerbrotin eru á stígum svo hægt sé að hreinsa þau.  Við höfum ekki rekist á þau.

Kveðja,
Guðbjartur Sigfússon, deildarstjóri gatna,
skrifstofu gatna- og eignaumsýslu,
Framkvæmda- og eignasviði Reykjavíkurborgar.

... og ég svara ...

Sæll Guðbjartur

Gott að vita að borgin sé að spara, en slæmt að það bitni á þeim samgöngum sem síst skyldi. Það mun væntanlega breytast í framtíðinni þegar fólk átta sig á hagkvæmni hjólreiða í þéttbýli.

Þú hlýtur að vera að grínast þegar þú segir mér að láta vita af glerbrotum. Ég er  vanur því að sparka (og jafnvel sópa) varasömum glerbrotum af gangstéttum fremur en að bíða eftir að borgin taki við sér. Það hef ég gert t.d.s.l. tíu mánuði eða frá því gangstéttir voru síðast sópaðar. Það er hinsvegar ekkert grín þegar gangstéttar eru þaktar sandi.

Svona til gamans sendi ég í viðhengi kort af Reykjavík. Þar merki ég með rauðum dílum staði þar sem nú má finna glerbrot á gangstéttum frá Umferðamiðstöðinni að Skeifunni. Er staðirnir á gangstéttum sunnan gömlu Hringbrautar og norðan Miklubrautar.

Þá gerðist það í síðustu viku að Kópavogur sópaði margar götur og helstu gangstíga. Gott mál en óvenjulegt. Það er nefnilega ekki á hverjum degi sem Kópavogur stendur sig betur en Reykjavíkurborg :-)


Kveðja,
Magnús Bergsson

Magnús Bergsson, 6.3.2009 kl. 03:06

7 Smámynd: Hjóla-Hrönn

Jahá.  Hvernig ferðast þessir menn um stígana án þess að verða varir við glerbrot?  Kannski á þyrlum?  Ég held að við hjólreiðafólkið sjáum raunar um að sópa stígana.  Ég er með lítinn sóp á hjólinu mínu, stoppa og sópa ef ég rekst á stór glerbrot, t.d. brotnar bjórflöskur.  Nema náttúrulega þegar snjóar, þá sé ég þau ekki.  Þegar snjórinn fer skal ég mynda glerbrotin á Sæbrautinni og senda Guðbjarti.  Hugsa að það verði eiginlega hálftíma video frekar en myndir, því þegar ég hjóla þetta í myrkri, þá endurkastast ljósið mitt stanslaust af glerbrotum.

Annars er merkilegt að mér finnst allir keppast við að spara á svo vitlausan hátt.  Nú er kallinn minn atvinnulaus, hann var áður með 190 þúsund á mánuði við að keyra meðalstóran trukk 8 tíma á dag.  Núna hangir hann heima og borar í nefið.  Og fær fyrir það 166 þúsund á mánuði.  150 þús í dagpeninga og 16 þúsund með tveimur börnum.  Væri nú ekki skynsamlegra að ráða fólk af atvinnuleysisskrá til að sópa stígana?  Jafnvel hluta úr degi á móti atvinnuleysisbótum.  Ég sé ekki að það yrði nein svakaleg kostnaðaraukning pr mánuð.  Við erum að tala um nokkur hundruð þúsund kalla á mánuði með tækjum og viðhaldi á þeim.  Raunar keyrir vinnubíll stígana nú þegar til að tæma rusladallana.  Það væri hægt að sameina þau störf og fjölga aðeins í hópnum, því yfirferðin verður hægari við sópunina.  Ávinningurinn er sá að æ fleiri myndu nýta reiðhjólið til samgangna.  Flestir sem byrja að hjóla daglega gefast fljótlega upp ef það gengur illa.  Ófærð fælir frá, glerbrot fæla frá, erfið gatnamót fæla frá.  Þannig er það bara.  Beinar, breiðar, hreinar og greiðar hjólabrautir laða fólk að hjólreiðum.  Sem er mjög hagkvæmur hlutur fyrir þjóðfélagið.  En merkilegt nokk, þá sjá ráðamenn það alls ekki.

Hjóla-Hrönn, 7.3.2009 kl. 20:12

8 Smámynd: Magnús Bergsson

Ég held að svörin sem ég fékk endurspegli fremur pirring þessara embættismanna í minn garð fremur en að þeir séu að svara mér af fullum heilindum eða fagmennsku. Ég hef áður pirrað þá með svona skeytum.

Því miður er enginn metnaður hjá borgini þegar kemur að jafnræði samgangna. Ég get fullyrt að embættismenn borgarinnar líta ekki á reiðhjólið sem samgöngutæki. Þeir hafa því ekki áhuga á að auka eða bæta hjólreiðarnar eins og allt gengur út á þegar kemur að bílum og akvegum. Þeir hafa enn minni áhuga á því að bæta aðstöðu hjólreiðafólks ef það á eftir að bitna á óheftu flæði bílaumferðar. Þegar hjólreiðar eru til umfjöllunar á opinberum vettvangi þá er það fyrst og fremst pólitísk sýndarmennska fremur en faglegt framlag. Þess vegna kalla t.d. ofangreindir embættismenn gangstígana "hjóla- og gangstíga". Þó bendir ekkert til þess að hönnuðir gangstígana taki mið af því að á stígunum eru líka stundaðar hjólreiðar. Samt sem áður eiga allir að trúa því "hjóla- og göngustígar" sé fullkomin lausn fyrir þá vilja nota stígana.

Ég er því miður hættur að trúa því að íslendingar eigi eftir að sjá alvöru hjólreiðabrautir á næstu áratugum. Það er slæmt, því þjóðin hefur ekki efni á því að reka núverandi einkabílakerfi.

Magnús Bergsson, 12.3.2009 kl. 01:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband