Mútufé eða styrkur?

Gott að reglur voru settar um fjárgjafir til stjórnmálaflokkana. Þegar leyndin og spillingin var sem mest styrktu þessir bílainnflytjendur sem líkja mætti við dópinnflytjendur líklega aðeins Íhaldið og Framsókn. Nú neyðast þeir til að láta alla fá sömu upphæð. Annað væri vart sæmandi í þjóðfélagi sem þarf að sýnast slétt og fellt. Líklega er þetta svo minni heildarupphæð þegar allt er talið.
Bílar ættu þá að verða mun ódýrari eftir þessar kosningar...það er reyndar ekki sérlega gott mál. Þessi lata og óskipulagða þjóð þarf á öðrum farartækjum að halda en bílum.
Svona til gamans fyrir þá sem láta glepjast og kaupa bíla hér á landi þá fer u.þ.b. 20% af verði bíls í auglýsingar og svona "styrki". 
mbl.is Brimborg styrkir alla stjórnmálaflokka um 300 þúsund krónur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Egill Jóhannsson

Sæll Magnús hjólreiðamaður

Hjól eru góð og nauðsynlegur kostur í flóru faratækja. Ég sé að þú ert mikill hugsjónamaður um hjólreiðar og það má lesa út úr þínum skrifum að þú ert ötull baráttumaður fyrir þínum hugsjónum.

En það er eitt sem maður ætti ávallt að hafa sem grundvallar reglu og líka þegar maður berst fyrir góðum málstað og það er að hafa sannleikann að leiðarljósi. Því maður myndi ætla að góður málstaður þyrfti ekki á ýkjum að halda.

Brimborg leggur áherslu á að koma fram af heiðarleika eins og sýnir sig í þeirri tilkynningu að við lýsum því yfir opinberlega að við styrkjum alla flokka. Auðvitað eru það ekki mútur því enginn flokkur hefur nokkra hagsmuni af því að hygla Brimborg eitthvað sérstaklega. Eina sem við förum fram á er að unnið sé samkvæmt leikreglum og rödd Brimborgar fái að hljóma eins og aðrar raddir. Og að tekið sé tillit til okkar eins og annarra.

Varðandi það að auglýsingakostnaður og styrkir sé 20% af bílverði er auðvitað bara vitleysa og ég get upplýst þig að ætli hlutfallið sé ekki nær því að vera um 1,0-1,3% og ef hlutfallið er borið saman við heildarveltu Brimborgar þá er hlutfallið um 0,8-0,9%.

Með kveðju

Brimborg

Egill Jóhannsson

E.s. og svona í framhjáhlaupi þá eru auglýsingar til þess fallnar að skapa samkeppni og koma upplýsingum á framfæri til væntanlegra kaupenda. Auglýsingar eru góðar og nauðsynlegar í nútíma þjóðfélagi. Eins og bílar, hjólhestar og hefðbundir hestar.

Egill Jóhannsson, 28.4.2007 kl. 12:07

2 Smámynd: Egill Jóhannsson

E.e.s.

Til skýringar þá vil ég bæta því við að ofangreindar hlutfallstölur sem ég nefndi eiga við um allan markaðskostnað þ.e ekki eingöngu auglýsingar og styrki heldur lilka framleiðslu efnis eins og bæklinga, kynningarefni í sýningarsal, o.s.frv. og einnig birtingu efnis.

Egill Jóhannsson, 28.4.2007 kl. 18:24

3 Smámynd: Magnús Bergsson

Sæll Egill.

Þessi tala, 20%, kom úr munni bílasölumanns í heitum potti í Laugadal fyrir nokkrum árum. Þá sem og nú, þótti mér það ekki óeðlilegt miðað við alla þá bílaumfjöllun sem er að finna í fjölmiðlum og er fyrir löngu búinn að ofbjóða mér. En OK ég skal taka þínar tölur trúanlegar, þar sem ég veit ekki hvaða maður þetta var í heita pottinum. Veltan í bílasölu er líklega orðin slík að þessi tala hlýtur að hafa lækkað með aukinni veltu síðustu ár.

Ég get líklega verið sammála þér að orðið “mútur” er líklega ekki rétta orðið hér á þessum stað, ekki síst þar sem upphæðirnar liggja ljósar fyrir almenningi. En ég kallaði það mútur þegar vitað var að fyrirtæki voru að styrkja stjórnmálaflokka og að ríkasti stjórnmálaflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, upplýsti ekki almenning um bókhald sitt. Miðað við þröngsýni Sjálfstæðisflokksins í samgöngu- og umhverfismálum þá bendir allt til þess að fyrr á árum og allt fram að þessum kosningum hafi þessi flokkur verið að launa styrkveitum sínum stuðninginn með heimskulegri ákvarðanatöku og þá er ég sérstaklega að tala um það sem tengist bílum og samgöngum. Þær ákvarðanir hafa alla tíð AÐEINS tekið mið af þörfum bílsins og bílasalans.

Ég er einn þeirra “vistvænu” vegfarenda sem hefur ekki sama aðgang að fjölmiðlum og þeir sem fjalla um bíla á einhvern hátt. Fjölmiðlar eru þrælar þeirra sem hafa fjármagnið, ekki síst þeirra sem auglýsa og mótast líka öll umræða af því. Ég er að verða einn þeirra örfárra Íslendinga sem hefur ekki tekið bílpróf og því ekki ánetjast bílum eins og flestir aðrir. Ég er því einn þeirra sem veit að bíll er ekki nauðsyn. Bíll er í flestum tilfellum þjónn letinnar sem er að draga vestrænt samfélag á asnaeyrunum með tilheyrandi umhverfis- og heilbrigðisvanda og kostnaði. Það að stjórnmálamenn skuli ekki hafa dómgreind til að sjá það, bendir til þess að “mútufé” til stjórnmálflokka skili árangri eða að “auglýsingar” bílageirans hafi sent rangar upplýsingar til almennings. Hér geri ég mér grein fyrir því að orðið “rangar” er ekki rétta orðið að þínu mati. Bílar eru ópíum nútímans þar sem þeir ýta undir leti og dómgreindarleysi almennings. Bílasölur eru því í mínum huga eins og hverjar aðrar dópsölur sem með auglýsingum sinum spila á hégóma almennings.

Ég geri mér grein fyrir að hér halda menn að ég sé að fara yfir stikið. En þess ber að geta að ég hef ferðast á reiðhjóli um allt land og víðar síðustu tvo áratugi og ef mér hefur einhvern tíma verið sýnt banatilræði þá hefur það verið gert með bílum á hverju ári. Ég tel það HREINASTA KRAFTAVERK að ég skuli vera enn á lífi. Sama gildir um foreldra mína og bróður sem fengið hafa að kynnast nærveru dauðans og limlestingum í bílslysum. Nær allar fjölskyldur í landinu hafa kynnst slíku og gætu sagt slíkar sögur. Samt sem áður er reynt að halda bílum sem mest að fólki. Það er einnig talið gott að börn og unglingar kynnist akstri sem fyrst á mótunarskeiði sínu, auðvitað með þeim orðum að þau geti orðið góðir ökumenn. Staðreyndin er hins vegar sú að þau gera lítið annað en að ánetjast bílum langt fyrir aldur fram og þá vanalega áður en þau taka út sinn líkamsþroska. Þá skal heldur ekki undra þó að offita, sykursýki og hjartasjúkdómar eru algengastir í löndum þar sem bílanotkun er mikil. Umhverfisvandinn er margslunginn allt frá því að efni til bílagerðar er unnin úr jörðu og í efnaiðnaðinum og þar til bílnum er fargað.

Hér læti ég staðar numið enda má skrifa um þetta mikla bók. Því miður vinn ég ekki við að selja skynsamar, vistvænar og hollar samgöngur og því nýtist mér ekki sólahringurinn eða vinnutíminn til að koma þeim sjónarmiðum á framfæri.

Magnús Bergsson, 29.4.2007 kl. 14:04

4 Smámynd: Egill Jóhannsson

Sæll Magnús

Ég hef verið í bílgreininni í yfir 25 ár og aldrei hefur 20% af veltu af sölu nýrra bíla farið í markaðskostnað. Því miður er það nú svo að fullt af fólki slær fram ýmsum fullyrðingum í þeirri vissu að enginn sé viðstaddur til að leiðrétta vitleysuna. Það gildir um heita potta eins og aðra staði. Stundum eru sumir svo óheppnir að ég er viðstaddur. það átti sér stað um daginn þegar ég fór á kaffihús eitt í bænum eldsnemma á laugardagsmorgni. Á næsta borði sátu fjórir karlar og einn hafði hæst. þar sem ég ligg yfir blaðinu heyri ég hann segja við hina með rödd þess sem allt veit að það sé nú þannig að eftir að Ford keypti Volvo þá sé Volvo ekki lengur framleiddur í Svíþjóð. Hélt hann um þetta langa ræðu.

Þegar mér fór að leiðast bullið og vitleysan sem vall upp úr manninum stóð ég upp, rölti að borðinu og leiðrétti manninn og sagði honum og félögum hans að nákvæmlega engar breytingar hefðu orðið á framleiðslu Volvo eftir að Ford keypti fyrirtækið árið 1999. Hann setti rauðan.

Varðandi bókhald stjórnmálaflokka þá veit ég ekki til þess að nokkur flokkur hafi opnað sitt bókhald frekar en Sjálfstæðisflokkurinn og því þykir mér skrítið að taka hann sem dæmi. Það voru síðan allir flokkarnir sem stóðu að þeirri lagasetningu sem núna gildir og Brimborg horfið til þegar umrædd ákvörðun var tekin.

Henry Ford fann ekki upp bílinn en innleiddi aðferð, færibandið og fjöldaframleiðsluna, til að gera almenningi kleift að eignast bíl og á sama tíma hækkaði hann laun verkamanna sinn aum 100%. Bíllinn losaði um átthagafjötra og jók frelsi til ferðalaga og hefur átt einn stærstan þátt í þeim lífsgæðum sem við búum við. Bíllinn er því það verkfæri sem hefur skapað þér þá möguleika að velja það að eiga ekki og nota ekki bíl. Bíll er ekki þjónn letinnar heldur afkastamikið tæki sem bætir lífsgæði okkar. Þetta er álíka hugsunarháttur hjá þér eins og þeim sem börðust gegn uppþvottavélunum á sínum tíma. Er uppþvottavél þjónn letinnar. Nei, auðvitað ekki, heldur er hún tæki til að við getum nýtt tímann í annað þarfara.

Bílar eru eins og ég sagði tæki og þá þarf að umgangast af varúð eins og önnur tæki og ákaflega undarlegt að kenna bílnum um það ef þú hefur lent í hættu. Það gæti verið bæði þér að kenna og ökumanni bílsins. Gífurlegar framfarir hafa orðið í öryggi bíla bæði til að vernda við árekstur og einnig til að koma í veg fyrir árekstur og slys. Sú þróun mun halda áfram. Auðvitað eru bílslýs hörmuleg en ef fjöldi slysa er borin saman við fjölda kílómetra sem eknir eru þá hefur slysum fækkað. En það þarf að gera betur.

Þetta styður auðvitað það að langflestir eru fínir ökumenn og ökumenn framtíðarinnar verða enn betri ökumenn en foreldrar þeirra því ökukennsla er mun betri í dag en áður. Gífurlegar framfarir hafa orðið þar en það á eftir að koma í ljós á nokkrum árum og enn betur með betri bílum.

Egill Jóhannsson, 29.4.2007 kl. 20:41

5 Smámynd: Magnús Bergsson

He he það getur verið skemmtilegt að lenda í svona uppákomum eins og þú lentir í á kaffihúsinu. 

Það er ekki hægt að líkja bíl við þvottavél. Þvottavél skaðar sjaldnast nokkuð annað en föt sem lenda á vitlausu prógrammi. Nær væri að líkja bílum við byssur, sem líkleg er ekki alveg raunhæft þar sem bílar drápu og limlestu fleiri á síðustu öld en allar styrjaldir samanlagt. Rúmlega helmingur ökumanna á Íslandi telja það ekkert athugavert að fá sér einn bjór fyrir akstur. Örugglega allir þeir sem nota sterk eiturlyf aka undir áhrifum og sá hópur fer vaxandi. Ég stend frammi fyrir því í dag að geta ekki sótt um vinnu hvar sem er á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að ég treysti mér ekki lengur til að hjóla um í þessari geðveiku umferðamenningu. Ég get ekki einu sinni farið eftir hjólreiðabrautum þar sem þær eru ekki til. Samgöngustefnan og bílar gerir því ekki annað en að binda mig átthagafjötrum. Bílar hafa ekki aukið lífsgæði. Það er lygasaga og sjálfsblekking. Það er eins og að segja að ópíum auki lífsgæði þar sem mönnum líði vel í vímunni. Bílar hafa því miður kalla yfir okkur stórkostleg vandamál efnahagsleg, heilsufarsleg og umhverfisleg vandamál. Vandamálið er að ekkert er talað um það. Bíll er vissulega afkastamikið tæki en bara ekki á réttum forsendum. Heimurinn og mannkynið þarf ekki á honum að halda eins og við vesturlandabúar höfum  markaðsett og notað hann.

Ég mundi fara rólega í það að tala falleg um Ford. Sú verksmiðja hefur barist t.d. harðast gegn bættu öryggi. Ford leiddi baráttuna gegn öryggisbeltum í mörg ár þar til Volvo datt í hug að lita á það sem viðskiptatækifæri. Ford hefur svo framleitt mikið magn af þessum fáránlegu risajeppum og gerir það enn. Það eru ekki síst þessir stóru bílar sem gera það að verkum að meðvitaðir stjórnmálamenn eru farnir að stöðva framrás einkabílavæðingarinnar.

Ég tek Sjálfstæðisflokkinn sem dæmi um spilltan flokk þar sem þeir stóðu harðastir flokka gegn því að almenningur fengi aðgang að bókhaldi flokksins. Ég er minnugur þess að Davíð Oddsson hreytti því út úr sér í umræðu á Alþingi um þessi mál að hann væri til í að opna bókhaldið en þá mundu menn ekki fá aðgang að eldra bókhaldi flokksins. Ég get ekki skilið þetta á annan veg en að flokkurinn hafi haft einhverju að leyna. Á sama tíma var hægt að nálgast bókhald annarra flokka á vefnum t.d. Vinstri Grænna. Þetta er afskaplega sérkennileg staðreynd í ljósi þess að Ísland kallast lýðræðisríki.

Ég get verið sammála þér að bílar geta verið ágætir til síns brúks. Þeir henta ágætlega líkamlega fötluðu fólki. Almenningsvagnar og flutningabílar eru bráðsnjallar hugmyndir en það gengur ekki upp að gera einkabíla að almenningseign. Fólki í heiminum er enn að fjölga og þar með neyslustigið. Einkabíllinn er þegar búinn að sprengja af sér allt skipulag, hann hefur ákaflega slæm áhrif á lýðheilsu sem kallar aðeins á aukin samfélagslegan kostnað. Þetta eru nokkrar Evrópuþjóðir búnar að fatta og vinna nú að því öllum árum að stemma stigu við fjölgun einkabíla. Þar ætla menn að byggja upp samgöngur með raunsæja framtíðarsýn að leiðarljósi. Auka almennings samgöngur og byggja upp samkeppnishæft hjólreiðabrautakerfi, á sama tíma er þrengt að bílum. Þeir sem reynt hafa þessa skipulagsbreytingu hafa verulega varir við bætt lífsgæði
Það mun engu breyta þó fram komi nýr orkugjafi fyrir bíla.  Verður aðeins litið á það sem viðbót við bætt lífsgæði.  Þarf ekki annað en að fara til Arnheim í Hollandi til að skynja og skilja þetta.

Ég get ekki orða bundist um starf þitt þar sem þú stjórnar bæði bílaumboði og bílgreinasambandinu! Í þinni stöðu sæi ég mikil tækifæri. Þann dag sem þjóðin eða sveitafélögin eignast alvöru stjórnmálamenn mun núverandi markaðsetning á þessu bíladrasli koma ykkur í koll. Það er ákaflega mikilvægt að hætta innflutning á bílum sem brenna jarðefnaeldsneyti nú þegar. Þið hafið greiðan aðgang að öllum fjölmiðlum. Í stað þess að spila á kjánagang og hégóma almennings getið þið sannfært fólk um ágæti litilla rafmagns og metanbíla sem vega ekki meira en 700kg.

Bílaumboðin gætu líka vel stofnað “Car Sharing” fyrirtæki. Þannig þarf almenningur ekki að eiga bíl heldur getur leigt hann á sanngjörnu verði. Svo ég bendi aftur á Holland sem er  þróaðast allra landa í samgöngumálum, þá er þar fyrirtæki sem heitir Greenwheels www.greenwheels.nl . Þetta fyrirtæki er með samstarf við hollensku lestarnar svo það er hægt að fá mikinn afslátt af öllum samgöngum. Þeir sem kaupa 80€ árskort í lestirnar fá 40% afslátt af lestarferðum. Þá fá menn líka 50% afslátt af  af árgjaldi Greenwheels. Þannig að ef ætlunin er að fá aðgang að bíl hjá Greenwheels borga menn 12.50 € á mánuði í áskriftagjald. Þegar bíll er svo leigður kostar það 5€ á klukkutímann og 0,11€ á km. Sem sagt nokkuð sanngjarnt.

Bílaumboðin geta vel verið með þessa “Greenwheel þjónustu” í samstafi við sérleyfishafa og Stræto bs. Ég hvet þig til að breyta þessari yfirþyrmandi stefnu í bílamálum okkar Íslendinga og koma því í nútímalegt horf .

 

Magnús Bergsson, 30.4.2007 kl. 14:31

6 Smámynd: Egill Jóhannsson

Reyndar þvær maður ekki tau í uppþvottavél  heldur leirtau en hvort sem um þvotta- eða uppþvottavél er að ræða þá einmitt hafa þær áhrif á umhverfið því maður notar þvottaefni í vélarnar sem fer á einn eða annan hátt í umhverfið, þær nota vatn, o.s.frv. Þær eru einfaldlega tæki sem maðurinn hefur þróað til að bæta lífsgæðin og þær umbætur yfirvinna ókostina. En þróun hefur orðið á þessu sviði eins og í bílum og tæknin batnar og áhrif á umhverfið minnka stöðugt.

Ergó: Maðurinn hefur einfaldlega áhrif á sitt umhverfi og markmiðið hlýtur að vera að heildaráhrifin séu sjálfbær og það er það sem á að stefna að. Leiðirnar að þeim markmiðum eiga ekki að vera bönn frá sjálfskipuðum sérfræðingum. Þessu á að stýra með almennum aðgerðum og efnahagslegum hvötum.

Þau vandræði sem þú telur upp hafa ekkert með bíla að gera heldur með þá einstaklinga að gera sem nota bílana eða byssurnar eins og þú nefnir. Að mínu mati eru áhyggjur þínar ofmetnar og langflestir kunna með þessi tæki að fara. Það er einfaldlega þannig að langflestir kunna ágætlega fótum sínum forráð. Það er einfaldlega gamaldags hugsunarháttur og á rætur sínar að rekja til vinstristefnu sem kölluð var kommúnismi um að lýðurinn þyrfti á leiðsögn að halda.

Þú gleymir einu algerlega í umræðunni um bætt lífsgæði í kjölfar bílsins. Þegar bíllinn kom á markað fyrir almenning, þökk sé Henry Ford, þá var almenningur fjötraður í átthagafjötra. Hann gat sig hvergi hreyft og átti ekki til hnífs né skeiðar. Það er erfitt fyrir ungt fólk nú á dögum og jafnvel mig að setja sig í spor þessa fólks. Með tilkomu bílsins fékk fólk frelsi, tækifæri, sköpunarkraftur var leystur úr læðingi og var bíllinn einfaldlega forsenda þeirra lífsgæða sem við nú lifum.

En það er með bílinn eins og þvottavélarnar að þetta eru tæki sem þarf að umgangast á réttan hátt og á síðustu öld lærði maðurinn á þetta tæki. Auðvitað vill maður alltaf að það gerist hraðar en framþróunin verður stöðug áfram. Þú nefnir að Ford framleiði risajeppa og geri það umfram aðra framleiðendur. Þetta er rangt því Ford hefur lagað sig mjög hratt að breyttum aðstæðum á markaði þó auðvitað hefði fyrirtækið eins og önnur fyrirtæki mátt gera það enn hraðar.

Á aðeins 3 árum hefur hlutfall fólksbíla og svokallaðra "crossovers" sem byggja á fólksbílatækni af heildarsölu Ford vaxið úr 30% í 50% og ekki er ólíklegt að hlutfallið verði komið í allt að 75% árið 2009.

Ég þakka ágætar ábendingar um möguleg viðskiptatækifæri á bílamarkaði. En það er vandinn við málflutning þinn og þeirra sem eru á sömu skoðun að þið gefið ykkur forsendur sem eru rangar. Því ætla ég líka að gefa þér gott ráð og það felst í því að þekkja andstæðing sinn og gefa sér ekki þá forsendu að hann hafi illan ásetning áður en maður hefur kannað málið.

Þú segir að bílaumboð ættu að hætta innflutningi á bílum sem nýta jarðefnaeldsneyti og hefja innflutning á rafmagns - eða metanbílum. Þetta er einmitt gott dæmi um að þú gefur þér þá forsendu að þetta sé hægt og að ástæðan hljóti að vera illur ásetningur þeirra sem stjórna bílaumboðum. Þvert á móti er þetta einmitt gott dæmi um óraunhæfar lausnir sem engu skila og koma bara frá fólki sem ekki þekkja vandamálið og þekkja ekki mögulegar lausnir. Það eru einfaldlega ekki til í neinu magni fjöldaframleiddar lausnir á rafmagnsbílum eða metangasbílum. Og þeir bílar sem eru til eru svo takmarkaðir að þeir henta ekki nema broti bílkaupenda, kannski hálfu prósenti.

Þú nefnir að ég sé framkvæmdastjóri bílaumboðs og formaður Bílgreinasambandsins og að ég ætti að nýta mér þessi embætti til góðra verka. Það hef ég einmitt gert en áskil mér rétt til að vinna í verkefnum sem eru raunhæf.

Ég aðeins verið einn mánuð sem formaður Bílgreinasambandsins en hef þegar skrifað fleiri greinar í blöð og á blogg og komið fram í útvarpsviðtölum varðandi mikilvægi þess að koma með raunhæfar lausnir á nýjum orkugjöfum og vistvænum bílum en í allri sögu Bílgreinasambandsins. Þannig að ekki þarftu að hvetja mig á þessum vettvangi. Einnig hef ég gert það sama á vettvangi innan bílgreinarinnar sjálfrar. Mun ég halda því áfram en ég mun ekki nota aðferðir stjórnmálamanna og slá um mig með lausnum sem hljóma vel en eru kjaftæði heldur vinna frekar að raunhæfum lausnum.

Það er alger forsenda fyrir lausnum á þessum vettvangi að maður beri virðingu fyrir þörfum annarra. Þá verða lausnirnar víðtækar og raunhæfar. Mitt fyrirtæki, Brimborg, flutti inn rafmagnsbíl í tilraunaskyni í kringum 1980, aftur í kringum 1984 og enn og aftur stóðum við að ráðstefnu á vegum Ford sem kom með Think rafbílinn hingað árið 2000.

Í orkukreppunni seinni um 78-80 var mikið talað um að rafmagnsbílarnir væru að koma. Því miður voru þessir bílar ekki tilbúnir og sérstaklega ekki fyrir íslenskar aðstæður því rafgeymarnir entust nánast ekkert og akstursvegalengdin í samræmi við það, nánast engin. Enn var reynt og fyrir nokkrum árum komu litlir rafmagnsbílar til landsins af Peugeot gerð en litið hefur spurst til þeirra síðan. Tæknin er einfaldlega ekki tilbúin. Við getum lamið hausnum við steininn endalaust en það leysir ekki höfuðverkinn.

Metangasbílar eru ekki fáanlegir í miklu úrvali enda ef svo væri þá væri innflutningur meiri en raun ber vitni. Það er engin ástæðan fyrir bílaumboð að flytja ekki inn bíl ef hann er framleiddur eins og aðrir bílar og með sama stuðning frá framleiðanda hvað varðar tæknilausnir ef bilanir koma upp. Svo hefur EKKI verið til að dreifa varðandi metangasbíla. Þó hafa tvö fyrirtæki mest sinnt þessu en þó hingað til alfarið á tilraunastigi. Það er Brimborg og Hekla. Þetta er hugsanlega að breytast og að búast má við fleiri metangasbílum sem eru fjöldaframleiddir en það er eins og áður segir alger forsenda fyrir því að þessir bílar séu boðlegir í einhverju magni á markaði. Almenningur tekur ekki við þeim fyrr.

Varðandi vetnis bíla þá er enn mjög langt í raunhæfa bíla en hægt er að kaupa bíla í dag sem kosta um og yfir 10 milljónir króna stykkið. Það sjá allir hversu raunhæft það er.

Ég hef látið Brimborg skoða mjög ítarlega eina lausn sem er raunhæf í dag og uppfyllir ofangreind skilyrði um tækni sem búið er að reyna og að bílarnir eru fjöldaframleiddir á sama hátt og hefðbundnir bílar og kosta því ekki meir og eru því raunhæfir fyrir almenning. Þetta eru bílar knúnir blöndu líf-etanóls og bensíns, kallað E85 því blandan er 85% líf-etanól og 15% bensín.

Þetta er lausn sem dregið getur úr gróðurhúsaáhrifum verulega á raunhæfan hátt og þá um leið dregið úr notkun jarðefnaeldsneytis. Lausnin hefur verið notuð í Brasilíu og Bandaríkjunum aldarfjórðung og fer vaxandi þar. Svíþjóð er það Evrópuland sem lengst er komið á þessu sviði og nú er svo komið að í hverjum mánuði eru skráðir 2000 nýir líf-etanól bílar í landinu og eldsneytisdreifingarstöðvum sem bjóða E85 fjölgar í hverjum mánuði.

Í þessu samhengi er rétt að nefna að umræða um að líf-etanól framleiðsla hækki matvælaverð er röng og lýsir þeim sem ekki hafa fylgst með því að þróun í framleiðslu á líf-etanóli er mjög hröð og t.d. framleiða Svíar það úr úrgangi frá skógarhöggi (svokölluð lokuð hringrás). Í þessu samhengi má einnig nefna að Evrópusambandið borgar bændum gríðarlegar fjárhæðir árlega fyrir að nýta EKKI landssvæði til matvælaframleiðslu. Þessi svæði mætti nýta til að framleiða plöntur fyrir líf-etanól framleiðslu. Að auki er gaman að geta þess að íslenskir vísindamenn vinna að rannsóknum á hitakærum örverum sem nýta mætti til að flýta framleiðsluferli líf-etanóls úr lífmassa t.d. grasi eða lúpínu.

Egill Jóhannsson, 1.5.2007 kl. 11:38

7 Smámynd: Magnús Bergsson

Þvottavél...uppþvottavél. Það er von að ég hafi ekki tekið eftir muninum. Þó hún sé til á heimilinu er ég jafn fljótur að vaska upp.  Ég nota hana því ekki. Ég spara á því rafmagn og líklega líka vatn. Ég nota heldur ekki sápu við uppvaskið því vatnið er það heitt að fita skolast burt eins og dögg fyrir sólu. Við umhugsun þá er sápa vart notuð á heimilinu nema rétt í ÞVOTTAVÉLINA og við handþvott. Þær sápur mér eru seldar teljast “vistvænar” sápur. UPPÞVOTTAVÉLIN sólundar því aðallega plássi í eldhúsinu og reyndar rafmagni og vatni þegar konan tekur upp á því að nota hana. Uppþvottavélin er einmitt gott dæmi um ruglið hjá nútímamanninum þar sem vélar eiga að redda öllu.
OK ég skal reyna vera svolítið “nútímalegur”.  Uppvottavélar henta stórum mötuneytum.

Á mínu heimili er meira að segja til bíll. Hann er í eigu konunnar og er svo litið notaður að það væri líklega óskinsamlegt að eiga rafmagnsbíl með hefðbundnum blý rafgeymi. Hún neyddist þá líkleg til að keyra meira til að tæma reglulega af geyminum. Ég kann svo ágætlega við að hafa bílinn standandi í hlaðinu. Hann nýtist nefnilega best sem þjófavörn. 

Þú ert væntanlega ekki sjálfskipaður sérfræðing í því að troða bíla upp á sem flesta. En það segir ekkert um það  hvort þú sért að vinna að skynsamlegu málefni. Bílar eru t.d. ekki sjálfbærir. Það verður enn sýnilegra eftir því hvað þeim og fólki fjölgar. Ég er því orðin mjög þreyttur á þessu frjálshyggjubulli að ekki megi hafa áhrif á sölu þeirra eða vöruúrval með boðum og bönnum og upplýstri umræðu. Upplýstir frjálshyggjupostular eins og Ken Livingston og Arnold Swarchenegger vinna nú af kappi að því að setja hömlur á mengandi bíla sem og einkabílaumferð. Þeirra stjórnunarhættir hafa verið til fyrirmyndar.

Við getum alveg hætt að þrasa um að bílar hafi bætt lífskjörinn. Við deilum einfaldlega ekki sömu lífsskoðun í þeim efnum. Fyrir mér og fólki sem vill lifa í heilbrygðu, vistvænu og rólegu samfélagi er bíllinn litið annað en böl. Bílar hefta ekki aðeins mína för, heldur gera ferðir mínar sem og ökumanna hættulegar. Ég lifi í stöðugum ótta um að ég muni einn góðan veðurdag missa son minn í umferðaslysi. Líf mitt er því þjakað af yfirgangi þraungsýnna rysafyrirtækja sem láta stjórnast af gróða fremur en af skynsemi.
Fyrir mann sem lætur bílinn þjóna leti sinni eða lætur hann gefa sér tækifæri til að búa til nýjar þarfir kalla ég ekki aukin lífsgæði.

Á sínum tíma sem unglingur hafði ég ekkert fyrir því að hlaupa úr Seljahverfi við Vatnsenda niður í miðbæ til þess eins að stunda Hallærisplanið og ganga rúntinn og hlaupa síðan aftur heim. Var ég þó aumkunarverður væskill. Tvisvar sinnum var mér gefið bílpróf á þessum árum, enn ég hafði vit á að nýta mér það ekki. Það var líklega þessari hreyfingu að þakka að ég hef hjólað svo til alla vegi og slóða á Íslandi í dag. Þau tíu sumur á meðan á því stóð voru tvímælalaust bestu sumur ævi minnar. Ég hef á þeim tíma líka hjólað víða um Evrópu allt sunnan frá Leon norður til Nordcap.  ÞAÐ ERU LÍFSGÆÐI. Með stöðugt aukinni bílaumferð í landi sem stjórnast af trufluðum bílstjórum þá sýnist mér að sonur minn fái ekki notið sömu lífsgæða.  Eftir að mörgum bílum hefur verið troðið upp á hvert heimili þá horfi ég upp á það að unglingar fara ekki út úr húsi nema með aðstoð bíls. Þau nenna ekki einu sinni að ganga að næsta strætisvagnaskýli. ÞAÐ ER BÖL, EKKI LÍFSGÆÐI. Ég geri ráð fyrir því að þú neitir að horfast í augu við að menningasjúkdóma eins og sykursýki, krabbamein, hjartasjúkdóma og offitu tengist mikilli bílanotkun.  Auðvitað eru þessir sjúkdómar tengdir erfðaþáttum að hluta en aukning þeirra er rakinn að stórum hluta til hreyfingaleysis. Af öllum hinum göllunum slepptum þá ættir þú að hætta því að halda því fram að bílar hafi aukið lífsgæði.

Ég geri ráð fyrir að þú litir á það sem lífsgæði að geta farið á ÞÍNUM bíl, þegar ÞÚ vilt, hvert sem er og á hvaða tíma sem er, dregið og flutt svo til hvað sem er. 
Ég tel bíla ágæta þegar það þarf að flytja eitthvað þungt (meira en 50kg) eða ég þarf að fara langt á skömmum tíma (50km eða meira). Í borgar og bæjarsnatt er bíllinn fáránlegur. Ég læt bílinn ekki gefa mér ástæðu til að fara á honum langar leiðir. Hann fær því ekki að stjórna lífi mínu sem þá fyrr eða síðar mun gefa mér ástæðu til að ætla að hann sé ómissandi. Ég á nefnilega ekki að fara yfir lækinn til að sækja vatnið.

Ég hef fremur kosið að verða mér út um fyrirferðalítinn búnað á hjólið svo ég þurfi enn sjaldnar á bíl að halda. Má þar nefna kerru sem ég hef notað til að flytja t.d. 5metra kajak. Kerran hefur flutt 6 metra langan stiga og bókaskáp sem vóg u.þ.b. 50kg. Vandamálið er hinsvegar að samgöngukerfið sem aðeins gerir ráð fyrir bílum, býður mér ekki upp á að nota þessa vistvænu útfærslu. Ég þarf því að beita útsjónasemi til að komast á milli staða, ekki síst þar sem umferðamenningin hér á landi er vægast sagt stór biluð.

Ég ætla ekki að þrasa við þig um einstakar útfærslur á bílvélum. Ég viðurkenni að þú veist allt betur um það. Það eina sem fær mig til að leggja við hlustir í þeim efnum er tengt umhverfissjónarmiðum í stóru samhengi.

Ég skil ekki hvers vegna metanbílar eru annað en gasbílar. Metan gas er mjög hættuleg efni og mun hættulegar en koltvíeldi, því verðum við að finna allar leiðir til að brenna því þar sem lífshættir okkar losa mikið metangas.

Ég geri þó ráð fyrir því að við gætum þrasað um rafmagnsbíla (nenni því samt ekki), ekki síst þar sem ég hef séð þróun rafmagnslyftara síðastliðin 30 ár og þurft að þjónusta þá í 25 ár. Þar veit ég að það er tilgangslaust að líkja saman rafmagnslyfturum frá því 1980, 1984 og jafnvel 2000. Á þessu tímabili hafa bæði rafgeymar og mótorstýringar þróast ótrúlega hratt. Venjulegir blýgeymar endast nú mun betur auk þess sem það eru stöðugt að koma fram nýjar gerðir geyma. Byltingin hefur þó verið mest í gerð mótorstýringa, frá því að vera viðnámsstýrð DC stýring yfir í það að vera AC stýringar með FET transistorum og ótrúlega góða nýtni. Brimborg ætti því að fylgjast betur með á þessu sviði. Rafmagnsbílar gætu nú þegar hentað vel helming borgarbúa. Ég nota rafmagnsbíl daglega á mínu vinnusvæði og hef haft mjög góða reynslu af honum.  Þann dag sem ég verð svo bæklaður að ég neyðist til að fá mér sjálfur bíl, þá verður Think bílinn mitt fyrsta val. Verst að við íslendingar skulum ekki framleiða hann sjálfir.  Það er bull að það sé aðeins hálft prósent sem vilji slíka bíla. Þeir eru mun fleiri. En ég skil afstöðu þína þegar horft er til reynslu þinnar á  gömlu drasli frá því 1980....ekki nema það séu samantekin ráð með olíufélögunum að markaðsetja ekki rafmagnsbíla? Mér finnst það trúlegt jafnvel þó þeir séu stórir í innflutningi rafgeyma.

Ég tel það ekki “illan ásetning” að bílaumboðin hafi ekki reynt að selja almenningi rafmagnsbíla. Tilvera umboða og framleiðenda er ekki tilkomin til að vernda umhverfi, náttúru og heilbrygði. Hún er tilkomin til að selja fólki bíla. Skiptir þá öllu að selja sem mest og græða sem mest. Þá getur verið “skynsamlegt” að standa ekki fyrir of hröðum breytingum svo að eldri fjárfestingar tapist ekki í einum vettvangi. Á það við bæði um bíla-og olíuframleiðendur. Þessir framleiðendur hafa því alla þróun og markaðssetningu í hendi sér, því miður. En svona virkar kapítalisminn. Ég verð auk þess að viðurkenna að nýjar gerðir rafgeyma eru í svo hraðri þróun síðustu misseri, að maður er hættur að fylgjast með.

Við erum alveg sammála um þróun vetnisvéla. Hún er tæpast umræðuhæf í þessu samhengi eins og staðan er í dag.

Ég fagna öllum nýjungum sem varða líf-etanól. Ég á eftir að fylgjast með þeirri umræðu og hef séð skrif þín um þessi mál. Sama gildir um tvinnbíla, biodísel og hvað það nú allt heitir. Við verðum að nýta þau efni sem við hendum í stað þess að ná í efni úr iðrum jarðar sem þegar hefur bundið koltvíeldi. Sú þróun mun kannski bjarga fyrir horn brýnasta verkefni samtímans í loftslagsmálum. Tíminn er þó orðin skuggalega naumur.  Þó útblástur bíla verði stöðvaður þá á eftir að leysa öll hin vandamálin sem tengjast bílum eins og t.d. lýðheilsa sem og ýmiskonar umhverfis- og skipulagsmál.

Nú er ég hættur þessum skrifum í bili enda enga hreyfingu úr því að hafa framann við skjáinn og heldur ekkert kaup.  Að lokum læt ég fylgja linka þar sem lesa má um efnahagslegan ávinning af því að fólk hjóli fremur en að aka. Er þá horft á heilsufarslegan ávinning.

http://www.toi.no/article5085-8.html

http://www.sustrans.org.uk/default.asp?sID=1164381904000

 

 

Magnús Bergsson, 3.5.2007 kl. 14:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband