Ég trúi því að guð sé dauður

Ég var að hlusta á þáttinn "Lárétt eða lóðrétt" á Rás 1. Þar ræddi Ævar Kjartansson við Gunnar Jóhannesson prest í Hofsós- og Hólaprestakalli.

Ég get ekki orða bundist því ég er orðinn hundleiður á því að trúarpostular haldi því statt og stöðugt fram að maðurinn verði að trúa á eitthvað. Trúarpostularnir eru svo sannfærðir um að lífið hafi tilgang að það hljóti að vera skapað af guði. Ef maður trúi því ekki þá hljóti lífið að vera ein allsherjar tómhyggja og svartnætti.  Gunnar hélt því fram að miklihvellur væri skapaður af guði því þá er talið að tími og rúm hafi orðið til. Fram að því hafi verið "ekkert". Því sé það í raun sönnun þess að guð hafi skapað heiminn í þeirri mynd sem við þekkjum í dag.

Í þessum efnum trúi ég engu nema því að allt sé óendanlegt, þ.e.a.s. svo langt sem skilningarvitin ná. Ég sætti mig fullkomlega við að fá aldrei fullnægjandi svar við því hvers vegna við erum til. Ég þarf ekki að halla mér að einhverjum "guði" svo ég fái "svar" við þessari áleitnu spurningu. Þó ég virðist lifa í tíma og rúmi sem virðist eiga upphaf í miklahvelli og ná að endamörkum útþenslu "alheimsins" þá er allt sem bendir til þess að til sé eitthvað annað sem við þekkjum ekki s.s. annars konar "tími og rúm" sem t.d. miklihvellur er liklega sprottin af.

Hvers vegna þarf að blanda einhverjum guði og Biblíu í þetta mál. Vissulega er eitthvað skrifað um sköpun heimsmyndar manna í Biblíunni, en menn eiga ekki að vera svo helteknir af þessari fornu bók að þeir reyni stöðugt að aðlaga texta hennar að nýrri þekkingu til að sanna tilvist guðs og þar með réttlæta valdabrölt kirkjunnar. Biblían er ágætis bók en hún er ekki merkilegri en margar aðrar bókmenntir. 

Þar sem ég er laus við heimsmynd Biblíunnar þá finnst mér alveg fullnægjandi að til sé óútskýranlegur "tími, rúm eða efnisheimur" sem skilningarvit og þekking ná ekki til. Mér finnst jafnvel líklegt að ég noti þar ranga skilgreiningu. Ég þarf ekki að nota orðið "GUÐ" fyrir þetta "eitthvað annað". Það ruglar bara guðstrúaða einfeldninga og viðheldur valdatafli trúarbragðanna sem og árekstrum milli þerra.  Ég þarf ekki að útskýra óútskýranlega heimsmynd með orðinu "guð" sem gerir heimsmyndina bara enn óútskýranlegri. Einhver trúboðinn gæti haldið því fram að það sem ég telji vera "eitthvað annað" sé guð (sem t.d. hlýtur að hafa verið til fyrir miklahvell), en þar sem ég er trúlaus þá vill ég fremur gefa mér að miklihvellur hafi verið breyting á einum efnisheimi yfir í annan. 

Gunnar hélt því líka fram að kristin trú væri nauðsynleg svo halda mætti uppi "kristnum" siðferðisgildin. Sú þvæla er er orðin óþolandi og ögrar bæði mínu siðferðisgildi og umburðarlyndi sem trúlausum manni. Engin trúarbrögð hafa úthellt meira blóði en kristin trúarbrögð. Í þessari hræsni liggur einmitt ein ástæða þess að ég er trúlaus. Góð siðferðisgildi koma trúarbrögðum ekkert við, að öðru leyti en því að trúarbrögð kasta þeim fram sjálfum sér til framdráttar. Það hafa trúarbrögð gert alla tíð, ekki aðeins þau kristnu heldur líklega öll trúarbrögð.

Kristin trúarbrögð gera ráð fyrir að maðurinn sé kóróna "sköpunarverksins". Þessi skoðun "trúaðra" manna hefur leitt til þess að þeir sjá manninn ekki í heildstæðu samhengi við náttúruna eða annað líf.  Ég, sem trúlaus maður, tel sjálfan mig í heimsmyndinni ekkert merkilegri en mýflugu. Ég tel mig hafa þeim skyldum að gegna að sjá mig í samhengi við náttúru og umhverfi. Ég verð því að reyna gera allt til þess að lifa sjálfbæru lífi, hvort heldur gagnvart náttúru eða mannlegu samfélagi.

Tilvist okkar er aðeins einu að þakka þ.e. sólinni. Tilvist okkar varð til vegna hennar og tilvist okkar mannanna mun að öllum líkindum enda áður en sólin endar sitt lífskeið. Mannskepnan er ekki merkilegri en baktería á sandkorni í stórum garði  og vitund okkar er ekki meiri vitund bakteríunnar á umhverfi sínu. 

Sá alheimur sem við lifum í í dag er annaðhvort að þenjast út út í hið óendanlega og kólna  eða dragast saman með auknum árekstrum og einni endanlegri sprengingu. Sú heimsmynd sem við lifum í í dag er full af endurtekningum. Hver veit nema ný heimsmynd skapist við að heimurinn dragist aftur saman í miklahvelli.....

Telur fólk í alvöru að hægt sé að finna einhvern "GUÐ" í þessari heimsmynd. Þvílík þvæla. Trú er aðeins haldið að fólki til að viðhalda eigna- og valdabrölti stofnunar frá miðöldum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni þór

Ég er algjörlega ósammála þér Magnús Bergsson

Árni þór, 16.3.2008 kl. 15:35

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæll Magnús.

Að mörgu leiti áhugaverð færsla hjá þér. Ég geri ráð fyrir að fyrirsögnin sé tilvitnun og að þú trúir ekki  í raun og veru að Guð hafi nokkru sinni verið lifandi. Ég geri einnig ráð fyrir að þér sé kunnugt um að það er ýmislegt fleira en sólin sem er "ábyrg" fyrir tilveru þinni. Júpíter og máninn ku vera alveg nauðsynleg til að æðri form lífs geti þróast á jörðinni. Svo margt kemur þar við sögu að mörgum finnst eins og það hljóti að liggja ákveðin vilji að baki öllum þessum einstæðu "tilviljunum" sem urðu til þess að líf þróaðist á jörðinni. 

Ég er líka sammála þér með stóra hvell og upphaf alheimsins. Ég er sannfærður um að ef að til er Guð sem er skapari í eðli sínu, er sköpunin og hann jafngömul af þeirri einföldu ástæðu að ekki er hægt að hugsa sér skapara án sköpunar. Til að vera skapari þarf hann að að hafa skapað eitthvað.

Ergelsi þitt út í trúarbrögð eru að vissu leiti réttlætanleg en það ætti ekki að hindra þig í að viðurkenna sögulegar staðreyndir sem sýna að drifkrafturinn að baki "siðmenninga" okkar kemur frá trúarbrögðum okkar. En við getum alveg kannað hvað býður okkar í staðinn ef við látum boðskap trúarbragða lönd og leið. Hvar er t.d. annað viðmið um réttlæti að finna en það sem við höfum komið okkur upp á trúarlegum forsendum í siðmenningu okkar. Hvað gerum við eðlislæga þörf okkar til að iðka tilbeiðslu, sýna helgun, tryggð og æðruleysi, allt afar mikilvægar forsendur andlegs vaxtar.

Með andlegum vexti á ég við þroska persónuleikans sem gerir okkur kleift að takast á við erfiðleika í lífinu og sjá einhvern tilgang með þeim. Að sjá tilgang í mótlæti, kallar á byrgð og áfram heldur fléttan. Enga fyrirmynd af slíku er hægt að finna í náttúrunni hvað þá hafa vísindin nokkuð um þetta að segja enda það ekki þeirra hlutverk. Allar skýrskotannir til félagslegrar ábyrgðar verða að hafa einhvern sameiginlegan grunn til að byggja á. Hingað til hafa það verið trúarbrögðin sem skaffað hafa þann grunn. Hvað á að koma í staðinn?

Svanur Gísli Þorkelsson, 17.3.2008 kl. 00:45

3 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Ef maður trúi því ekki þá hljóti lífið að vera ein allsherjar tómhyggja og svartnætti.

Mér finnst merkilegast að þetta viðhorf Gunnars felur í raun í sér meiri tómhyggju en viðhorf margra guðleysingja. Því samkvæmt Gunnari þá hefur ekkert tilgang eða merkingu í lífinu þrátt fyrir að þér finnist það hafa merkingu eða tilgang.

Finnst þér börnin þér gefa lífinu þínu merkingu og tilgang? Því miður, tengist guði ekki neitt og hefur þar af leiðandi engan tilgang og enga merkingu.

Í staðinn fyrir að sætta sig við raunverulegan tilgang eins og þennan, þá segir Gunnar að eini raunverulegi tilgangurinn sé einhvern veginn sá að hlýða einhverri ósýnilegri persónu (sem vill svo skemmtilega til að Gunnar er í mjög nánu sambandi við ). 

Gunnar hélt því fram að miklihvellur væri skapaður af guði því þá er talið að tími og rúm hafi orðið til. Fram að því hafi verið "ekkert".

Gunnar misskilur greinilega kenninguna í sambandi við Miklahvell. Það er alls ekki vitað að ekkert hafi verið til. Menn komast aftur að tíma þar sem heimurinn var í mjög litlum punkti og þá flækjast málin. Það eru til alls konar tilgátur í sambandi við hvað orsakaði útþenslu úr þessum litla punkti, en ég held að enginn vísindamaður sé að rannsaka tilgátuna "Ósýnilegur kall gerði það". Upphaf alheimsins er einfaldlega eitt af þessum fáu svæðum sem við höfum afar litla hugmynd um hvað hafi gerst, og eins og alltaf þá reyna trúmenn að troða guðinum sínum í þau svæði þar vitneskja okkar nær ekki. Á tímum víkinganna voru það þrumur, nú er það Miklihvellur.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 17.3.2008 kl. 16:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband