Ertu einn/ein af þeim sem fara reglulega út úr þéttbýlinu til að njóta náttúrunnar í þögn frá skarkala höfuðborgarinnar? Stundar þú skoðunarferðir, göngur, veiðar, ljósmyndun, hljóðritun eða rannsóknir í kyrrlátu umhverfi utan borgarmarkana?
Ég ver talverðum tíma í umhverfis- og náttúruhljóðritun. Þar á meðal hljóðritanir af fuglasöng, ekki þá aðeins til að njóta heldur líka til greiningar í víðu samhengi. Fuglasöngur er ekki aðeins "einhver tjáskipti" fugla, heldur gefa hljóðin líka upplýsingar um landsvæðið sjálft, gerð þess og heilbrigði. Hljóðrit fugla og dýra geta því verið áhugaverð til frekari greiningar á vistkerfum. Það er því nokkuð ljóst að þetta verkefni getur tekið mörg ár
Gera má ráð fyrir að vistkerfi og fjölbreytileiki fugla á Suðurlandi hafi breyst mikið við framræslu mýrlendis í upphafi síðustu aldar. Nú má segja að vistkerfi á Suðurland standi aftur á tímamótum vegna trjáræktar. Fuglalíf á því eftir að breytast mikið á næstu árum, bæði þar sem og annars staðar.
Þá vita margir um breytingar hjá sjófuglum síðustu misseri um land allt sem vert er að skoða nánar.
Ég geri ráð fyrir að menn séu stöðugt að fylgjast með vistfræðilegum fjölbreytileika hér á landi en ég veit ekki til þess að nokkur sé að safna hljóðum í slíka vinnu (ef svo er væri gaman að vita af því).
Og þá kem ég að mínum vanda í þessari hljóðritasöfnun.
Ég á ekki og mun ekki fá mér bíl, því hann nýtist mér ekki neitt nema flytja upptökubúnað um langan veg. Því biðla ég til fólks sem á erindi út á land hvort það hafi tök á því að hafa hljóðmann meðferðis? Hljóðbúnaðurinn er misjafnlega fyrirferðamikill en getur tekið pláss á við "sæmilegan bakpoka"
Ég hef einnig áhuga á því að komast í samband við fólk sem sér notagildi í svona hljóðritasöfnun og hefur skoðun á því hvernig best sé að standa að verki s.s. með skráningu ýmissa umhverfisþátta. Þá væri gott að fá hugmyndir um svæði þar sem vert væri að hljóðrita og hugmyndir frá fagfólki sem sýnir þessari vinnu áhuga. Þá skal það líka tekið fram að ég get hljóðritað í vatni. Lífríki sjávar og vatna eru því allt eins á verkefnalista mínum. Sama gildir um tónlist, samkomur, mannvirki, jökla, hveri og jarðskorpuna. Í raun allt sem getur gefið frá sér hljóð frá 1Hz upp í 100Khz.
Hljóðritun á náttúru á ýmislegt sameiginlegt með kvikmyndun á náttúru. Maður þarf tíma og þolinmæði og vera á réttum stað og tíma til að takast á við viðfangsefnið. En oftar en ekki er það hið óvænta á tökustað sem gefur viðfangsefninu gildi.
Þeir sem áhuga hafa á þessu viðfangsefni og/eða eiga tök á því að hafa hljóðmann meðferðis í ferðir út úr skarkala höfuðborgarinnar mega endilega hafa samband við mig hvenær sem er, á hvaða árstíma sem er.
Magnús Bergsson
fieldrecording.net@gmail.com
simi: 6162904
http://fieldrecording.net
Að lokum sendi ég hér linka á viðtöl við tvo hljóðmenn með svipað efni.
http://www.cbc.ca/thecurrent/episode/2012/05/16/the-great-animal-orchestra-bernie-krause/
http://being.publicradio.org/programs/2012/last-quiet-places/